Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson telur það verulega alvarlegt að erlenda njósnafyrirtækið Black Cube hafi komið á framfæri við fjölmiðla gögnum sem aflað var með ólögmætum hætti í því skyni að hafa áhrif á niðurstöður íslenskra kosninga.
Hvarvetna á Vesturlöndum sé sótt að lýðræðinu og sú staðreynd að njósnafyrirtæki hafi í skjóli nafnleysis og leyndar reynt að hafa áhrif á umræðu á vettvangi stjórnmálanna sé varhugaverð.
Þá telur hann mikilvægt að eitthvert stjórnvald grípi í taumana og rannsaki málið til þess að reyna að fá sem flest gögn upp á yfirborðið um það.
Ríkislögreglustjóri safnar gögnum í tengslum við málið þar sem sonur Jóns Gunnarssonar alþingismanns var beittur blekkingum af ísraelsku njósnafyrirtæki. Leynilegar upptökur af honum voru bornar á borð fjölmiðla. Sonur Jóns hefur þegar verið kallaður til upplýsingagjafar hjá ríkislögreglustjóra í tengslum við málið.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur ekki viljað tjá sig um málið en embættið segir að ekki verði gefnar upplýsingar umfram þær að lögreglan muni kanna málsatvik er varða meinta háttsemi erlends fyrirtækis.
Ríkislögreglustjóri á sæti í Þjóðaröryggisráði ásamt forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra meðal annarra. Svo vill til að allir ofantaldir ráðherrar eru úr Sjálfstæðisflokknum eins og sakir standa.
Sigurður segir það aðra birtingarmynd þess að nafnlausir aðilar vegi að hagsmunum landsins.
„Það er alveg ótrúlegt annað en að eitthvert stjórnvald geti hafið rannsókn, þó að það sé ekki nema til að afla gagna. Ríkislögreglustjóri er að afla gagna sem hluti af þjóðaröryggisráði en er ekki í því að gefa út ákærur eða að rannsaka málin sem slík. Þess vegna ætti héraðs- eða ríkissaksóknari að hafa frumkvæði að því að rannsaka þetta mál,“ segir Sigurður.
Hann segir ljóst að persónuverndarlög hafi verið brotin. Hins vegar sé öllu alvarlegra mál að verið sé að reyna með ólögmætum og saknæmum hætti að afla upplýsinga í því skyni að hafa áhrif á gengi ákveðins manns eða tiltekins stjórnmálaflokks í kosningum.
„Ríkið hefur dælt peningum í stjórnmálaflokka og fjölmiðla og Alþingi setur takmarkanir á þá upphæð sem hver og einn getur styrkt stjórnmálaflokka um,“ segir Sigurður.
„Getur þá verið í lagi að unnið sé að því að afla upplýsinga af erlendum aðilum sem eru keyptir dýru verði til þess að koma upplýsingum í hendurnar á fjölmiðlum hér á landi til að hafa áhrif á kosningar? Hver er munurinn á þessu og að hamla framlögum til stjórnmálaflokka til að koma í veg fyrir áhrif og ítök hagsmunaafla?“ veltir Sigurður upp.
Bætir hann því við að hvarvetna í lýðræðisríkjum sé erlendur stuðningur við stjórnmálasamtök illa þokkaður.
En er þjóðaröryggisráð ekki lamað þegar það samanstendur af stærstum hluta af ráðherrum úr þeim sama flokki og umfjöllunin nær til?
„Jú, þess vegna er það sérstaklega alvarlegt þegar þú tekur út eitt stjórnmálaafl á Íslandi en á sama tíma veit enginn hver þú ert,“ segir Sigurður.
Hann segir að öll lýðræðisríki hljóti að hafa áhyggjur af því þegar erlendir aðilar vilji hafa áhrif á mál í krafti áhugamála sinna og auðæfa.