Á Álftanesi hefur mikið verið byggt á síðustu árum, til dæmis rað- og fjölbýlishús, og á síðustu mánuðum hefur fjöldi Grindvíkinga einmitt fest sér íbúðir þar.
„Álftanesið er svolítið eins og sveit: hér er allt mátulega stórt og samfélagið gott. Þetta minnir um margt á Grindavík, þar sem við fjölskyldan áttum góðan tíma og ætluðum að vera þar. Svo breyttist allt og þá urðum við bara að byrja upp á nýtt,“ segir Valdís Guðmundsdóttir.
Þau Valdís og Hjörtur Már Gestsson eiginmaður hennar fluttu með börnunum sínum tveimur, átta ára tvíburum, til Grindavíkur árið 2019.
„Áslaug Rós systir mín og Tómas Guðmundsson maður hennar, sem er Grindvíkingur í húð og hár, og við Hjörtur fórum saman í að byggja parhús við Víkurhóp.
Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og húsið var nánast tilbúið þegar ósköpin dundu yfir,“ segir Valdís, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún starfaði á heilsugæslustöðinni í Grindavík en síðan á sama vettvangi í Reykjanesbæ.
Hjörtur er verkfræðingur, var byggingafulltrúi í Grindavík en hefur nú snúið sér að rekstri eigin fyrirtækis og sinnir þar teikningu og hönnun lagna og loftræstikerfa.
Fyrst eftir að Grindavík var rýmd fengu Valdís og fjölskylda hennar inni hjá ættmennum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Þá máttu þau sátt þröngt sitja um sinn.
Þau fengu svo íbúð hjá leigufélaginu Bríet í Vogum á Vatnsleysuströnd og voru þar frá í byrjun þessa árs fram í september síðastliðinn. Höfðu þegar þar var komið sögu fest kaup á fokheldri íbúð í raðhúsi við Víðiholt á Álftanesi.
„Þarna erum við systurnar aftur nágrannar og líkar vel. Íbúðina fengum við í mars síðastliðnum, sumarið tókum við í fráganginn og fluttum svo inn í september. Og boltinn er aftur farinn að rúlla; fólk fer í vinnu og börnin í skóla. Í Álftanesskóla byrjuðu í haust 24 börn sem áður voru í Grindavík; svipaður fjöldi og er í einni bekkjardeild.“
Viðtalið má lesa í heild sinni í sérblaði Morgunblaðsins um hamfarirnar í Grindavík 10. nóvember.