Brottvísun og endurkomubann eftir aðkomu að 66 málum

Maðurinn var hnepptur í varðhald til að tryggja brottvísun hans …
Maðurinn var hnepptur í varðhald til að tryggja brottvísun hans og endurkomubann í 7 ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður frá Litháen var 1. nóvember hnepptur í gæsluvarðhald þar sem hann beið þess að vera vísað úr landi. Þá hefur einnig verið tekin ákvörðun um 7 ára endurkomubann mannsins til Íslands. Hefur maðurinn í tvígang á síðustu árum verið dæmdur í samtals 29 mánaða fangelsi og hefur hann verið skráður sakborningur í samtals 66 málum sem lögreglan hefur haft til skoðunar síðan 2019.

Úrskurður um varðhald yfir manninum var staðfestur í Landsrétti 4. nóvember, en varðhaldsúrskurðurinn var aðeins til 8. nóvember. Ekki er því ljóst hvort varðhaldið hafi verið framlengt á ný eða hvort búið er að vísa manninum úr landi.

Ógn við grundvallarhagsmuni samfélagsins

Brotasaga mannsins nær aftur til ársins 2019 hér á landi, en síðan þá hefur hann verið skráður sem sakborningur í 66 málum hjá lögreglunni, en í þeim er hann talinn hafa framið 141 brot á almennum hegningarlögum og umferðarlögum.

Mat lögreglan það svo að ef hann yrði ekki hnepptur í varðhald myndi hann halda brotum sínum áfram og vera ógn við grundvallarhagsmuni samfélagsins. Kemur fram að hann stundi enga vinnu hér á landi og geti ekki framfleytt sér án stuðnings ríkis eða sveitarfélaga.

Útlendingastofnun birti manninum fyrst ákvörðun árið 2020 um að hann …
Útlendingastofnun birti manninum fyrst ákvörðun árið 2020 um að hann hefði ekki dvalarleyfi lengur hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki nóg að hljóta dóm til að vera vísað á brott

Hann hlaut árin 2022 og 2023 tvo dóma upp á samtals 29 mánuði, en árið 2020 hafði Útlendingastofnun áður birt honum ákvörðun um brottvísun þar sem hann nyti ekki lengur dvalarréttar hér á landi. Er þar vísað til XI kafla í útlendingalögum, en þar segir meðal annars að hægt sé að vísa ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkja úr landi sé það nauðsynlegt út frá allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.

Sérstaklega er tekið fram í lögunum að þó að viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar sé brottvísun aðeins heimil nema „um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægja ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.”

Tilkynnti sig ekki inn og var handtekinn

Þrátt fyrir tilkynninguna árið 2020 um að hann nyti ekki lengur dvalarréttar hafði maðurinn ekki yfirgefið landið. Það var svo 16. október á þessu ári sem honum var tilkynnt um brottvísun og endurkomubann og gert að sæta tilkynningarskyldu til 12. nóvember. Eftir að hann hafði ekki tilkynnt sig inn helming daganna fram að mánaðarmótum var hann handtekinn 31. október þannig að tryggt væri að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann yrði framfylgt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert