Framkvæmdum ekki frestað

Frá framkvæmdum við Landspítalann við Hringbraut.
Frá framkvæmdum við Landspítalann við Hringbraut. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki þarf að koma til þess að dregið verði úr framkvæmdum við nýjan Landspítala á næsta ári, hvað þá að framkvæmdum verði frestað að sögn Ásgeirs Margeirssonar, formanns stýrihóps um framkvæmdir við Landspítala, um tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um 2,5 milljarða kr. hliðrun í byggingu nýs Landspítala á næsta ári.

Ásgeir gerir athugasemdir við fyrirsögn fréttar Morgunblaðsins í dag og á mbl.s um að í tillögu meiri hlutans felist frestun á framkvæmdum á næsta ári og bendir á að svo sé ekki heldur sé hér verið að hliðra til fjárveitingum til verkefnisins á milli ára.

Þarf í raun ekki að koma til þess að dregið verði úr framkvæmdum

„Öll sem að verkefninu koma eru að fullu upplýst um þessa hliðrun, sem skapast af framgangi uppbyggingarinnar. Það kemur hins vegar ekki fram í fréttinni, sem kemur fram í gögnum málsins sem fréttin byggir á, að verulegur uppsafnaður afgangur (fjárheimilda) í lok þessa árs bætist við framlagið í frumvarpinu,“ segir Ásgeir í svari við fyrirspurn um málið.

„Því þarf í raun ekki að koma til þess að dregið verði úr framkvæmdum, hvað þá að fresta framkvæmdum við Landspítala,“ segir hann.

Orðrétt segir í tillögu meiri hlutans um framkvæmdirnar við spítalann á næsta ári:

„Gerð er tillaga um 2,5 ma.kr. hliðrun í byggingu nýs Landspítala þannig að dregið verði úr framkvæmdum á næsta ári sem því nemur. Í þessu sambandi er bent á að til viðbótar við 18,4 ma.kr. framlag í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir verulegum uppsöfnuðum afgangi í lok þessa árs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert