Hálfgerð martröð fyrir kosningastjóra

Fyrst var greint frá ýmsum skrifum Þórðar Snæs Júlíussonar um …
Fyrst var greint frá ýmsum skrifum Þórðar Snæs Júlíussonar um konur í þættinum Spursmálum sem sýndur var á mbl.is í vikunni. Morgunblaðið/María Matthíasdóttir.

„Ég held að allar svona uppákomur geri það, en það er spurningin hve mikil áhrif þær hafa. Það er óvíst,“ segir Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur í samtali við Morgunblaðið, spurður hvort skrif Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, kunni að hafa neikvæð áhrif á fylgi flokksins í komandi alþingiskosningum.

Ýmis skrif Þórðar Snæs undir dulnefni á bloggsíðu hafa komið fram í dagsljósið, en í þeim kallar hann konur m.a. „lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur“. Hann nefnir og tilraun félaga sinna til að „reyna að pikka upp eina 12 ára handa mér, sem var afar hressandi“.

Þórður Snær skipar 3. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, næstur á eftir Degi B. Eggertssyni. Kristrún Frostadóttir formaður flokksins er í 1. sæti.

„Því nær kosningum sem svona kemur upp, því verra er það,“ segir Birgir og telur óvíst að fennt hafi yfir málið þegar að kosningum kemur. Svo kunni mögulega að vera hjá einhverjum sem höfðu hugsað sér að kjósa flokkinn, en alls ekki öllum.

Spurður hvort hann telji líkur á að kjósendur Samfylkingarinnar í kjördæminu fari að ábendingu Kristrúnar flokksformanns, en hún benti mögulegum kjósanda flokksins sem hugnaðist ekki að kjósa Dag á að strika yfir nafn hans, og striki yfir nafn Þórðar Snæs segir Birgir að kjósendum sé almennt kunnugt um þann möguleika. Til að mynda hafi verið talsvert um útstrikanir í kosningunum í kjölfar bankahrunsins.

Hann segir að Samfylkingin hafi jafnan heldur meira fylgi meðal kvenna en karla, en einstaklingsbundið sé hversu nærri sér fólk taki skrif eins og þau sem Þórður Snær hefur orðið uppvís að.

Því nær kosningum hefur meiri áhrif

„En mér liggur við að segja að það sé hálfgerð martröð fyrir kosningastjóra og fólk í framboði að fá svona rétt fyrir kosningar. Nú eru kjósendur að tala um þetta í staðinn fyrir „planið“,“ segir Birgir og vísar þar til kosningastefnu Samfylkingarinnar.

„Allar svona uppákomur sem flokkurinn hefur ekki stjórn á eða varpa með einhverjum hætti slæmu ljósi á hann eru ekki eitthvað sem flokkar vilja að komi rétt fyrir kosningar. Því nær kosningum sem svona gerist, því meiri áhrif. Þetta er ekki gott fyrir neinn,“ segir Birgir.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert