28% eða ríflega fjórðungur þjóðarinnar hefur einu sinni eða oftar pantað vörur á Temu ef marka má könnun Prósents sem var gerð dagana 1.-12. nóvember.
15% þeirra sem svöruðu hafa pantað einu sinni af þessu kínverska markaðstorgi á netinu þar sem er að finna vörur á miklum afsláttarkjörum, sem að mestu eru sendar kaupendum beint frá Asíuríkinu.
9% svarenda hafa pantað tvisvar til fimm sinnum en öllu færri pantað oftar. 2% þeirra sem svöruðu hafa pantað sex til níu sinnum og önnur 2% hafa pantað tíu sinnum eða oftar.
Mikill meirihluti svaraði því til að hafa ekki pantað af Temu og hafa ekki áhuga á því eða 59%.
Öllu fleiri konur hafa pantað (31%) en karlar (25%).
Flestir sem pantað hafa á Temu eru á aldrinum 45-54 ára eða 36%. 32% þeirra sem pantað hafa eru úr aldurshópnum 55-64 ára, 30% úr aldurshópnum 35-44 ára og 28% úr aldurshópnum 65 ára eða eldri.
Athygli vekur að í yngstu tveimur aldurshópunum hafa nokkuð færri pantað: 23% sem pantað hafa eru úr aldurshópnum 25-34 ára en aðeins 17% úr yngsta aldurshópnum 18-24 ára.
Þegar rýnt er í aðrar bakgrunnsbreytur má sjá að fleiri panta af landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. 32% svarenda á landsbyggðinni hafa pantað einu sinni eða oftar en 26% svarenda á höfuðborgarsvæðinu.
Ef menntun svarenda er skoðuð má sjá að flestir þeirra sem pantað hafa á Temu hafa lokið grunnskólaprófi eða minni menntun eða 32%.
Úrtakið var 2.500 einstaklingar 18 ára eða eldri úr könnunarhópi Prósents og var svarhlutfallið 50%.