Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Árekstur.is, segir símann vart hafa stoppað í um þrjár klukkustundir. Hann biðlar til fólks að aka varlega.
„Það kom heldur betur bomba eftir hádegi,“ segir Kristján í samtali við blaðamann mbl.is.
Skjótt skipast veður í lofti en sunnanátt sem hefur verið um land allt síðustu daga vék fyrir norðanátt í nótt og því víða snjókoma og hálka.
Gular og appelsínugular viðvaranir eru í gildi um land allt og akstursskilyrði því erfið víða.
„Þetta var bara rosalega fljótt að breytast enda varð allt brjálað þarna á tveimur eða þremur tímum. Síminn bara stoppaði ekki,“ segir Kristján en hann telur að um 20-30 tilkynningar hafi borist á þeim tíma.
„Þannig það kom heldur betur hvellur.“
Aðspurður segir Kristján fólk yfirleitt fara varlega þegar spáin sé slæm og því séu ekki alltaf samasemmerki milli anna og slæmrar veðurspár. Hálkan hafi aftur á móti komið mörgum að óvörum – meira að segja honum sjálfum.
„Ég var sjálfur að keyra á Reykjanesbrautinni við Ikea og ég sá ekki neitt og missti stjórn á bílnum. Ég áttaði mig engan veginn á því hvað það myndaðist mikil hálka á skömmum tíma,“ segir Kristján.
Hann segir tilkynningunum farið að fækka en að hann telji ekki ólíklegt að þeim taki að fjölga aftur seinnipartinn þegar fólk heldur heim úr vinnu. Hann biðli því til fólks að fara hægt og varlega í umferðinni og varast svokallaðan svartan ís.