Borgarstjóri kveðst hugsi yfir ráðherra

Einar Þorsteinsson borgarstjóri mætti á fundinn.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri mætti á fundinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum enn að vinna úr athugasemdum íbúanna. Það er skýrt að tillögurnar munu breytast, fyrstu hugmyndir um hátt í 500 íbúðir eru að taka breytingum og sú tala mun lækka eftir athugasemdir íbúa,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri í samtali við Morgunblaðið, en hann var spurður hvort tekið yrði tillit til mikilla mótmæla íbúa í Grafarvogi við fyrirætlanir borgarinnar um nýbyggingar á grænum svæðum í hverfinu.

Hann kveðst ekki kannast við að til hafi staðið að byggja 600 íbúðir á þéttingarreitum og ekki skilja hvaðan sú tala sé komin.

„Við erum að eiga í raunverulegu samráði. Við erum að vinna með athugasemdir frá íbúum og tillögurnar munu taka breytingum. Það er eðlilegt, ef boðið er upp á samráð eins og ég gerði, að taka mið af athugasemdum. Það ætlum við að gera,“ segir Einar.

Hann nefnir að lagt sé til að byggð verði einbýlis-, par- og raðhús, auk lágreistra fjölbýlishúsa í takt við þau sem fyrir séu í hverfinu. Fjölbreytni yrði í fyrirrúmi í takt við þarfir íbúa.

Guðlaugur berjist gegn húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík

Íbúar í hverfinu eru liðlega 18.000 og segir Einar að fjölgun íbúa í hverfinu muni ráðast af því hvernig hús verði byggð, en hann segist gera ráð fyrir að fjölgunin yrði undir 1.000 manns í Grafarvogi.

„Tölurnar sem settar voru fram á fundinum um fjölgun upp á 2.000 manns og 600 íbúðir eru á misskilningi byggðar,“ segir hann.

„Ég er afar hugsi yfir því að Guðlaugur Þór, ráðherra sem vill láta taka sig alvarlega, skuli berjast jafn hatrammlega og raun ber vitni gegn húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. Ekki aðeins gegn húsnæðisuppbyggingu í Grafarvogi, heldur líka gegn uppbyggingu í Keldnalandi. Ég veit ekki betur en að alþingiskosningarnar núna snúist að stórum hluta um skort á húsnæði. Ef við byggjum of lítið hækkar verðbólgan og vextir um leið og þetta er stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka