„Kom skemmtilega á óvart“

Ari Eldjárn segir viðurkenninguna hafa komið sér á óvart.
Ari Eldjárn segir viðurkenninguna hafa komið sér á óvart. mbl.is/Eyþór

„Þetta er gríðarlegur heiður og ótrúleg hvatning. Mitt aðalstarf er að flytja gamanmál og uppistand munnlega og til þess hef ég notað íslenska tungumálið,“ segir Ari Eldjárn, uppistandari og textasmiður, sem í ár er handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sem afhent voru í dag í Eddu - húsi íslenskunnar, á degi íslenskrar tungu.

„Ég flyt langmest á íslensku þó svo ég noti ensku líka en íslenskan kemur alltaf fyrst. Allt sem ég hef gert í gegnum tíðina hefur verið samið á íslensku fyrst en hún er aðallega verkfæri sem ég nota í minni sköpun. Mér finnst eiginlega alveg ótrúlegt að fá svona viðurkenningu og það á þessum degi. Maður tengir verðlaunin meira við eitthvað sem er ritað en ég praktísera nánast alfarið í munnlegri geymd.“

„Íslenskan hefur verið mér yrkisefni í uppistandi en stór hluti …
„Íslenskan hefur verið mér yrkisefni í uppistandi en stór hluti af gríninu mínu er að bera íslenskuna saman við önnur tungumál og útskýra hvað allt er lýsandi á íslensku.“ mbl.is/Eyþór

Einstök eftirherma

Í rökstuðningi dómnefndar segir að verðlaunin hljóti Ari fyrir framlag sitt til íslenskrar uppistandsmenningar og fyrir að skemmta ungum sem öldnum á íslenskri tungu:

„Það þykja nú engar fréttir að það sé komin ný Star Trek-mynd,“ skrifar kvikmyndagagnrýnandi Helgarpóstsins árið 1997 og heldur áfram: „[myndirnar] hafa runnið út á færibandi síðustu átján árin og verið hver annarri verri.“ Sá sem ritaði þessi orð hafði ekki aldur til að muna sjálfur eftir frumsýningu fyrstu Star Trek-myndanna, hann var bara fimmtán ára en hafði samt skrifað í blaðið í næstum því ár.

Umræddur gagnrýnandi, Ari Eldjárn, hefur síðan orðið einn ástsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar. Í uppistandi sínu beinir hann gjarna sjónum að íslenskri tungu; sköpunarmætti hennar, afkáraleika, sérstöðu en líka skyldleika við önnur tungumál ekki síst þau norrænu. Þá er Ari einstök eftirherma en hæfileikar hans eru ekki aðeins fólgnir í því að ná málrómi og sérkennum einstaklinga heldur hefur hann næmt eyra fyrir því sem einkennir málsnið þeirra og ólíkra hópa í samfélaginu.“

Ari er handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar í ár.
Ari er handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar í ár. mbl.is/Eyþór

Gríðarlega sáttur og glaður

Þá segir Ari viðurkenninguna hafa komið sér skemmtilega á óvart.

„Ég varð samt alveg gríðarlega sáttur og glaður þegar ég frétti þetta. Íslenskan hefur verið mér yrkisefni í uppistandi en stór hluti af gríninu mínu er að bera íslenskuna saman við önnur tungumál og útskýra hvað allt er lýsandi á íslensku.“

Ari er einn ástsælasti uppistandari þjóðarinnar.
Ari er einn ástsælasti uppistandari þjóðarinnar. mbl.is/Eyþór

Stuðningur við íslenska tungu

Sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu hljóta aðstandendur og þátttakendur í þróunarverkefninu Kveikjum neistann við Grunnskólann í Vestmannaeyjum. Um verkefnið segir dómnefnd að síðan því var hleypt af stokkunum árið 2021 hafi það skilað eftirtektarverðum árangri bæði hvað varði bætta líðan nemenda en líka færni í lestri.

„Verkefnið er til 10 ára og er stutt af Vestmannaeyjabæ, menntamálaráðuneytinu, Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Einn af áhugaverðustu þáttum verkefnisins er hvernig það samþættir áherslur í lestri, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og áhugahvöt. Lykillinn að góðum árangri nemenda í lestri þakka aðstandendur stöðumati, eftirfylgni, markvissri þjálfun og áskorunum miðað við færni. Að lokum má ekki gleyma samstilltu átaki nemenda og góðum kennurum.“

Var það Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti verðlaunin og viðurkenninguna en kynnir var Jakob Birgisson grínisti. Þá fluttu GDRN og Vignir Snær lag og texta úr Málæði – íslenskuverkefni grunnskóla auk þess sem Arnaldur Indriðason rithöfundur las úr nýútkominn skáldsögu sinni, Ferðalokum, sem byggir á ævi Jónasar Hallgrímssonar.

Nánar verður rætt við Ara Eldjárn á menningarsíðum Morgunblaðsins á mánudaginn, 18. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert