Einar Þorsteinsson borgarstjóri felldi Oslóartréð sem mun prýða Austurvöll yfir hátíðarnar í Heiðmörk í hádeginu í dag.
„Eftir að hafa fengið viðeigandi öryggisútbúnað hjá Skógræktinni til verksins naut borgarstjóri aðstoðar Sævars Hreiðarssonar skógarvarðar hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur við að saga tréð og fella það,“ segir í tilkynningu.
Við mælingu reyndist tréð vera um 13 metra hátt sitkagrenitré sem er tæplega hálfrar aldar gamalt.
„Oslóarborg gaf í áratugi Reykvíkingum jólatré sem tákn um vináttu borganna og sameiginlegar hefðir og jólagleði. Þótt Oslóartréð komi nú úr Heiðmörk hefur það engu breytt um vináttuna og í stað jólatrés gefa borgaryfirvöld í Osló grunnskólum í Reykjavík bækur.“
Að trjáfellingu lokinni var viðstöddum boðið upp á ketilkaffi og norskt konfekt að viðstöddum fulltrúum frá norska sendiráðinu og færeysku sendistofunni.
Hanna í Horni, sendikvinna Færeyja á Íslandi, var einnig viðstödd athöfnina, en kveikt verður á jólatré sem er gjöf frá Reykjavíkurborg í Þórshöfn í Færeyjum þann 30. nóvember. Eimskip sér um að flytja tréð til Færeyja.
Jólaljósin á Oslóartrénu verða tendruð við hátíðlega athöfn á fyrsta sunnudegi í aðventu þann 1. desember klukkan 16.