Myndir: Nemendur Vopnafjaraðskóla unnu LEGO-keppni

Sigurlið keppninnar í ár DODICI.
Sigurlið keppninnar í ár DODICI. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nemendur Vopnafjarðarskóla sigruðu í hinni árlegu og alþjóðlegu tækni- og hönnunarkeppni, First Lego League. Liðið DODICI sem nemendurnir skipa hefur með sigrinum unnið sér inn þátttökurétt í norrænum keppnum First Lego League síðar í vetur.

Tæplega 200 grunnskólanemar í 20 liðum tóku þátt í keppninni sem fór fram í Háskólabíói í dag.

Liðin áttu að leysa fjölbreytt verkefni, m.a. að forrita LEGO-vélmenni til að leysa þrautir á keppnisbraut og vinna nýsköpunarverkefni sem tengist þema keppninnar, sem í ár var Neðansjávar (e. SUBMERGED).

Liðin þurftu einnig að kynna hvernig þau hefðu hannað og forritað vélmennið auk þess sem horft var til liðsheildar og samstarfs innan hvers hóps við mat á frammistöðu í keppninni.

Í ár voru jafningjaverðlaun enn fremur veitt í fyrsta sinn í keppninni en viðurkenninguna hlaut það lið sem að mati annarra liða þótti hafa sýnt hvað mesta vinnusemi og liðsanda, háttvísi og fagmennsku.

Tuttugu ára afmæli á næsta ári

Háskóli Íslands heldur utan keppnina hér á landi en henni er ætlað að efla áhuga ungs fólks á vísindum og tækni og að styrkja færni þeirra í lausnamiðaðri og skapandi hugsun, segir í tilkynningu.

Keppnin er haldin með stuðningi Verkfræðingafélags Íslands.

Þegar stig höfðu verið talin saman kom í ljós að liðið DODICI- úr Vopnafjarðarskóla var sigurvegari í heildarkeppninni.

Í verðlaun fékk liðið forláta bikar úr LEGO-kubbum og 200 þúsund krónur í verðlaunafé.

Jafnframt býðst liðinu að taka þátt í norrænni keppni FIRST LEGO League síðar í vetur, annaðhvort í Noregi, þar sem norsk og sænsk lið keppa, eða í Danmörku, þar sem dönsk og færeysk lið etja kappi.

Keppnin var spennuþrungin.
Keppnin var spennuþrungin. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Og hélt keppendum á tánum.
Og hélt keppendum á tánum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Eftirfarandi lið hlutu verðlaun á keppninni: 

Besta hönnun og forritun vélmennis

1. sæti: Smokkfiskarnir úr Garðaskóla í Garðabæ

2. sæti: DODICI- úr Vopnafjarðarskóla

3. sæti: Kolkrakkar úr Rimaskóla í Reykjavík

Vélmennakappleikur

1. sæti: DODICI- úr Vopnafjarðarskóla

2. sæti: Smokkfiskarnir úr Garðaskóla í Garðabæ

3. sæti: Gemsarnir úr Grunnskóla Drangsness og Hólmavíkur

Besta liðsheildin

1. sæti: 701 úr Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði

2. sæti: Kraftboltar úr Kerhólsskóla í Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi

3. sæti: Team Starfish úr Borgarhólsskóla á Húsavík

Besta nýsköpunarverkefnið

1. sæti: Humrarnir úr Grunnskóla Hornafjarðar

2. sæti: Acid Rayne úr Landakotskóla í Reykjavík

3. sæti: El Grilló úr Seyðisfjarðarskóla

Jafningjaverðlaun

HáaLEGOskóli úr Háaleitisskóla

Keppnin First Lego League mun fagna 20 ára afmæli á Íslandi á næsta ári og í tilkynningu segir að þeim áfanga verði fagnað með veglegum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert