Efnahags– og viðskiptanefnd leggur til að breytingar verði gerðar á fyrirhuguðu gjaldi sem sett verður á nikótínvörur með nýju frumvarpi. Upprunalega tók gjaldið aðeins mið af þyngd vörunnar, en nefndin leggur til að gjaldið verði þrepaskipt og taki einnig mið af nikótínmagni í vörunni.
Í október boðaði Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra frumvarp í Samráðsgátt sem felur m.a. í sér að sérstakt gjald verði lagt á nikótínvörur, einnota rafrettur og áfyllingarvökva í rafrettur.
Um 35-40% Íslendinga á aldrinum 18-24 ára neyti nikótínpúða í vör á hverjum degi, samkvæmt upplýsingum frá Prósent.
Miðað við fyrirhugaðar breytingar myndi verð á nikótínpúðum hækka umtalsvert. Hækkunin myndi nema 30 krónur fyrir hvert gramm af heildarþyngd vörunnar en venjuleg dolla af nikótínpúðum vegur um 14 grömm.
Samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra myndi verð á nikótínpúðadollunni hækka um 420 krónur, en nú hefur efnahags og viðskiptanefnd lagt fram breytingatillögur þar sem stungið er upp á annars konar gjaldtöku.
Frumvarpið hefur m.a. verið gagnrýnt af landlækni, þar sem gjaldtakan tekur aðeins mið af þyngd vöru en ekki heildarstyrk nikótíns í vöru.
„Fyrirhuguð gjaldtaka kynni að hafa þær afleiðingar að framleiðendur og neytendur þessara vara myndu leitast við að skipta yfir í vörur sem innihalda hærra magn af nikótíni en það færi gegn lýðheilsumarkmiðum,“ segir í nefndarálitinu.
Í þeirri gagnrýni sem barst nefndinni er tekið fram að í Danmörku sé farin sú leið að þrepaskipta gjaldi á nikótín eftir nikótínstyrk.
Í umsögn embættis landlæknis kemur fram að gjaldtaka sem miðast við nikótínmagn í vöru kynni að virka sem hvati til að minnka styrkleika nikótíns í vörunum almennt.
Meirihluti í nefndinni telur því að gjaldtakan taki ekki mið af skaðleika varanna, og bendir á að rafrettur teljist töluvert skaðlegri en nikótínpúðar. Þess vegna leggur nefndin til að gjaldtaka á nikótín taki mið af styrk í vöru frekar en þyngd og verði skipt í þrep eftir magni þess.
Breytingarnar fela í sér hærri gjaldtöku á rafrettuvökvum heldur en á einnota rafrettum eða nikótínpúðum.
Til samanburðar myndi dolla af vinsælu nikótínpúðategundinni Velo Freeze 4 (15mg/g) hækka í verði um 180 kr., frekar en 300 kr, (hver púði vegur 0,7g og inniheldur 11g af nikótíni).
Auk þessa myndu vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda ekki nikótín hækka um 40 kr. á hvern millilítra vöru. Vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur þar sem styrkur nikótíns er 12 mg/ml eða lægra myndu hækka um 40 kr. á hvern millilítra og vökvar þar sem styrkur nikótíns yrði 12,1 mg/ml eða hærra hækkuðu þá um 60 kr. á hvern millilítra.
„Þá beinir meirihlutinn því til stjórnvalda að framkvæma lýðheilsumat á áhrifum af gjaldtöku á nikótín og eftir atvikum endurskoða gjaldtökuna eða bregðast við með öðrum viðeigandi hætti ef niðurstöður gefa tilefni til þess,“ segir í nefndarálitinu.