Tindur Mount Everest, hæsta fjalls heims, stendur í um 8.849 metra hæð yfir sjávarmáli. Gengið er á hann frá Tíbet í norðri og Nepal í suðri svo grunnbúðir er að finna beggja vegna.
Um 800 manns reyna við tindinn á ári hverju en tveimur þriðju tekst að jafnaði að komast alla leið. Tólf Íslendingar hafa toppað Everest frá árinu 1997.
Mun fleiri ganga í grunnbúðirnar eða 30 til 40 þúsund manns á ári hverju. Jafnan er annars vegar gengið að vori, frá mars og fram í maí, og hins vegar að hausti, frá september og fram í nóvember. Algengara er að Íslendingar fari að hausti.
Auglýst ferð á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu kostar um 580 þúsund krónur á manninn. Innifalinn er akstur til og frá flugvelli í Katmandú, skoðunarferð um borgina, flug frá Katmandú til Lukla og til baka, þyrluflug frá Dingboche til Lukla, matur að mestu leyti, þjóðgarðsgjöld, leiðsögu- og burðarmenn úr röðum innfæddra og íslensk fararstjórn.
Flug til og frá Katmandú er ekki innifalið en það kostar um og yfir 200 þúsund krónur á manninn. Þá eru nauðsynlegar tryggingar ekki innifaldar en skv. upplýsingum Morgunblaðsins nema þær um 30 þúsund krónum. Göngufólk þarf þá sjálft að reiða fram 25-30 þúsund krónur vegna þjórfjár fyrir leiðsögu- og burðarmenn og rúmar sjö þúsund krónur vegna vegabréfsáritunar.
Nánar í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.