„Brjálað að gera“ á kjörstað á Tenerife

Utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst á H10 Conquistador hótelinu á Tenerife í morgun.
Utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst á H10 Conquistador hótelinu á Tenerife í morgun. Ljósmynd/Markús Antonsson

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst á H10 Conquistador hótelinu á Tenerife í morgun.

Að sögn Önnu Clöru Björgvinsdóttur, eins af eigendum vefsíðunnar Allt Tenerife, var „brjálað að gera“ á kjörstað. 

Utanríkisráðuneytið stendur fyrir tveimur sérstökum atkvæðagreiðslum utan kjörfundar á Spáni vegna komandi alþingiskosninga. 

Kjörstaðurinn á H10 Conquistador hótelinu opnaði klukkan 10 í morgun og lokaði klukkan 14.

Anna Clara var með þeim síðustu sem mættu á kjörstað og sögðu starfsmenn utanríkisráðuneytisins við hana að biðröð hefði strax myndast klukkan 10. Stríður straumur kjósenda var allan opnunartímann. 

Mikil ánægja í þetta skiptið

Anna Clara segir mikillar ánægju gæta á meðal Íslendinga sem búa á Tenerife með þjónustu utanríkisráðuneytisins í þetta skiptið.

Fyrir forsetakosningarnar í júní kláruðust kjörseðlar áður en allir höfðu kosið. Því þurfti að senda fleiri kjörseðla til Kanaríeyja. 

Anna Clara segir að heppnin hafi verið með kjósendum hvað varðar veður í dag, glampandi sól og um 28 stig. Á morgun verður sami opnunartími á kjörstaðnum á H10 Conquistador hótelinu.

Utanríkisráðuneytið stendur fyrir tveimur sérstökum atkvæðagreiðslum utan kjörfundar á Spáni …
Utanríkisráðuneytið stendur fyrir tveimur sérstökum atkvæðagreiðslum utan kjörfundar á Spáni vegna komandi alþingiskosninga. Ljósmynd/Markús Antonsson

Kosið á Gran Canaria og Torrevieja

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að með þessu vill utanríkisráðuneytið tryggja þjónustu á svæðum þar sem fjöldi íslenskra ríkisborgara hefur ekki beinan aðgang að kjörræðismanni.

Ræðismaður Íslands á Kanaríeyjum stendur einnig fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu á Tenerife á fimmtudag, þann 21. nóvember, frá klukkan 10 til 12:00, sem fram fer í Adeje City Hall.

Þá er vakin sérstök athygli á því að kjörræðismaður Íslands í Las Palmas stendur fyrir sérstakri utankjörfundaratkvæðagreiðslu, á suðurhluta Gran Canaria á þriðjudag, 19. nóvember, og fer hún fram á veitingastaðnum Why Not Lago? milli kl. 09:00 og 13:00.

Sérstakar utankjörfundaratkvæðagreiðslur verða einnig haldnar í vikunni á Torrevieja, 20. til 22. nóvember, á Piscina bar frá kl. 13 til 16 alla dagana.

Kjörgögn fyllt út.
Kjörgögn fyllt út. Ljósmynd/Markús Antonsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert