Þessi maður var á staðnum

Ólafur K. Magnússon vann á Morgunblaðinu í hartnær hálfa öld …
Ólafur K. Magnússon vann á Morgunblaðinu í hartnær hálfa öld og setti sitt mark á Íslandssöguna með einstökum ljósmyndum sínum. Nú er komin út bók um Óla K.

Í stofunni hjá sagnfræðingnum Önnu Dröfn Ágústsdóttur hangir stór svarthvít ljósmynd af mannhafinu á Lækjartorgi á kvennafrídeginum 1975. Það er við hæfi að setjast í sófann undir myndinni, enda er hún tekin af af Ólafi K. Magnússyni sem viðtalið snýst einmitt um. Óli K., eins og hann var gjarnan kallaður, starfaði í hartnær hálfa öld á Morgunblaðinu og var brautryðjandi á Íslandi á sviði blaðaljósmyndunar.

Sagan í ljómyndum

Anna Dröfn hafði lengi gengið með þá hugmynd í maganum að skrifa um hann bók og eftir fjögurra ára rannsóknarvinnu er bókin Óli K. nú komin út. Þar tvinnar hún saman frásögnum um líf hans og störf við sögu þjóðar á seinni hluta tuttugustu aldar og að sjálfsögðu prýða einstakar ljósmyndir hans bókina. Óli K. á sannarlega sinn þátt í að sagan hafi verið varðveitt í ljósmyndum, en hann hafði afar næmt auga, kunni að segja sögur í myndum og var með gott nef fyrir fréttum.

Anna Dröfn Ágústsdóttir skrifaði bók um Óla K. ásamt Kjartani …
Anna Dröfn Ágústsdóttir skrifaði bók um Óla K. ásamt Kjartani Hreinssyni. Hugmyndin kviknaði fyrir tólf árum. mbl.is/Ásdís

„Kveikjan að bókinni var í raun fyrir löngu síðan, árið 2012. Þá var ég heima hjá vinkonu minni sem er barnabarn Óla K. og var þá búsett hjá foreldrum sínum. Á einum vegg voru ljósmyndir eftir hann frá þekktum viðburðum eða af fólki sem ég þekkti. Þarna mátti sjá Nató-mótmælin, kvennafrídaginn, Halldór Laxness þegar hann vann Nóbelsverðlaunin og Louis Armstrong þegar hann kom til Íslands. Hún segir mér að þær séu allar eftir sama manninn, afa sinn. Mér fannst þetta svo flott og varð fyrir miklum hughrifum. Þessi maður var á staðnum; hann var viðstaddur þar sem sagan gerðist. Ég sagði við hana að það þyrfti að gera bók eða bíómynd um afa hennar og þessi hugmynd fór aldrei úr huga mér,“ segir Anna Dröfn, en ættingjar og samstarfsfólk Óla tóku vel í það þegar hún viðraði hugmyndina. Önnur verkefni tóku við hjá Önnu Dröfn og bókin um Óla K. var sett á ís. En nú tólf árum eftir að hugmyndin fæddist er bókin loks komin út.

Lærði í New York og Hollywood

„Mér fannst mjög heillandi að skoða söguna í hálfa öld út frá sjónarhóli eins manns. Mér fannst áhugavert að ekki væri eingöngu hægt að segja þessa hálfrar aldar sögu sem hann ljósmyndaði, heldur líka flétta inn í, út frá hans ævi, aðra viðburði í sögu aldarinnar,“ segir Anna Dröfn.

Óli K. lærði ljósmyndun í Bandaríkjunum og bar heim með …
Óli K. lærði ljósmyndun í Bandaríkjunum og bar heim með sér nýja strauma.

„Óli er unglingur þegar Ísland er hernumið og siglir með skipalest í stríðinu til New York þar sem hann fór í ljósmyndanám og þaðan lá leiðin til Los Angeles að læra kvikmyndagerð í Hollywood hjá Paramount Pictures. Hann kemur svo heim tveimur árum síðar með nýja sýn og takta sem mér fannst gaman að máta við aðrar persónur sem eru þekktar og voru uppi á sama tíma“ segir hún.

„Það eru því margar vörður í sögu þjóðar sem ég næ að snerta á í gegnum sögu hans.“

Óli kom heim tvítugur að aldri og bar með sér tísku og strauma frá Bandaríkjunum og flutti meðal annars inn flottan amerískan kagga.

„Mér er sagt að hann þótti mikill kvennaljómi og var mjög flottur þegar hann kom heim frá Hollywood. Algjör töffari,“ segir hún en Óli festi ráð sitt um þrítugt þegar hann kvæntist Evu Kristinsdóttur sjúkraliða og eignaðist með henni fimm börn.

Söguskilningur og fréttanef

Óli myndaði lífið í landinu, náttúruhamfarir, slys, pólitísk átök og náði einnig einstökum portrettum af listamönnum, stjórnmálamönnum og hvunndagshetjum.

„Óli var alltaf á vaktinni, sérstaklega fyrstu tuttuguogfimm árin. Þekktustu fréttamyndir hans eru frá óeirðunum á Austurvelli þegar var verið að mótmæla inngöngu í Nató 1949. Þar skrásetur hann í aðdragandanum, eftir á og á meðan á þeim stóð. Hann er þar inni í miðjum atburðinum þegar allt brýst út,“ segir Anna Dröfn og telur að þessar myndir standi upp úr þegar rætt er um fréttamyndir Óla.

„Svo held ég sjálf mikið upp á myndina hér af kvennafrídeginum,“ segir hún.

Óli K. var að sjálfsögðu viðstaddur kvennafrídaginn árið 1975.
Óli K. var að sjálfsögðu viðstaddur kvennafrídaginn árið 1975.

„Að mínu mati eru það ekki fréttamyndirnar endilega sem standa upp úr heldur alveg eins myndir af fólki við sín störf og eins börn að leik. Fyrir mér standa þessar hversdagsmyndir upp úr. Hann fer út á hverjum degi, því það þurfti að setja myndir í blaðið óháð því sem var í fréttum. Þannig er í myndum hans eins konar þjóðarpúls sem er tekinn dag eftir dag sem mér finnst einstakt.“

Lærifaðir heillar kynslóðar

Ólafur K. Magnússon á sannarlega stóran þátt í að skrásetja söguna og var virtur og dáður af samstarfsmönnum sínum á Morgunblaðinu, og víðar.

„Ég heyri það að hann hafði ótrúlega mikil áhrif á fólk. Á Mogganum er heil kynslóð af ljósmyndurum sem lærðu af honum og fleiri ljósmyndarar hafa einnig haft orð á því. Hann leit líka á sig sem læriföður, enda er hann fyrstur til að skapa ákveðnar hefðir í þetta fag hér. Það er löngu tímabært að það komi út bók um hann svo aðrir megi læra um hans áhrif af því ég held að flestir Íslendingar hafi séð myndir eftir hann,“ segir hún, en myndir hans hafa gjarnan birst í kennslubókum um sögu þjóðar, oft þá litlar með frásögnum.

Nú í fyrsta sinn fá myndir hans og líf að vera í aðalhlutverki í bók. Opnuð hefur verið sýning í kaffihúsi Ásmundarsals með verkum Óla K. og mun hún standa fram í janúar.

Mynd þessi hafa sumir nefnt fréttamynda tuttugustu aldar. Hún sýnir …
Mynd þessi hafa sumir nefnt fréttamynda tuttugustu aldar. Hún sýnir óeirðir á Austurvelli þegar mótmælt var inngöngu í Nató. Morgunblaðið/ÓKM

„Ég vildi draga fram hlut ljósmyndarans sem velur sjónarhornið og hvað mótar þann einstakling. Ég vil meina að hans sýn hafi haft mótandi áhrif á hvernig ég hugsa um sögulega atburði í dag og ég held það hljóti að eiga við um fleiri.“

Við fótskor meistarans

„Fyrir mér er Ólafur K. Magnússon annar af tveimur mestu fréttaljósmyndurum íslenskrar ljósmyndasögu. Hann tók fréttamynd tuttugustu aldar þann 30. mars 1949; hún sýnir atburðinn svo frábærlega vel,“ segir Einar og vísar til myndarinnar sem sjá má hér á fyrri síðu af óeirðunum á Austurvelli.

„En myndir sem ekki síður hafa höfðað til mín eru portrett af listamönnum, eins og portrett af Kjarval þar sem hann situr í bíl að teikna og askan hangir af sígarettunni,“ segir Einar Falur sem starfaði lengi sem ljósmyndari og síðar myndstjóri á Morgunblaðinu.

Kjarval með augum Óla K.
Kjarval með augum Óla K. Morgunblaðið/ÓMK

Einar Falur segir mikilvægt að Óli K. hafi sótt sér menntunar erlendis.

„Hann fer af landi brott til að afla sér menntunar á þessu sviði sem var gríðarlega mikilvægt. Það var ein mesta gæfa Morgunblaðsins á 20. öld að hann skyldi koma þangað með sína fersku sýn á það hvernig væri hægt að segja sögu í ljósmyndum í fréttamiðli. Hann hafði gott auga og var ástríðufullur fréttamaður og hafði áhuga á þjóðmálum, pólítík og mannlífinu og vissi og skildi hvernig væri hægt að segja sögur af lífinu með stökum ljósmyndum,“ segir Einar Falur, en hann kynntist Óla K. strax sem unglingur og lærði margt af honum.

„Hann var kallaður á Alþingi ljósmyndari þjóðarinnar og skrásetning Óla á sögu þjóðar, sérstaklega á tímabilinu frá 1947 og fram á áttunda áratuginn, er einsök og hann er þar algjör lykilmaður.“

Bar ómælda virðingu fyrir honum

„Óli K. kenndi mér svo margt; til dæmis man ég að ég ætlaði einu sinni að fara að skipta um myndavél því ég hélt að þá myndi ég taka betri myndir. Hann sagði mér að vera ekki að skipta um hest í miðri á; ég kynni vel á þessa vél og ætti bara að nota hana. Hann gaf mér oft góð ráð um hvernig ég ætti að mynda á erfiðum stöðum þar sem birtan var slæm,“ segir Emilía en hún var ljósmyndari Morgunblaðsins og lengi vel verkstjóri á ljósmyndadeildinni.

„Svo var hann bara svo góður maður og alltaf góður við okkur „krakkana“, sem við vorum auðvitað á þessum tíma. Hann var sannarlega lærifaðir okkar,“ segir Emilía.

Óli K. tók margar myndir af fólki við störf sem …
Óli K. tók margar myndir af fólki við störf sem sýna vel tíðaranda þess tíma. Morgunblaðið/ÓKM

„Hann var mikið að segja skemmtilegar sögur af atvikum. Ég bar alltaf ómælda virðingu fyrir honum og maður fann það í þjóðfélaginu hvað var mikil virðing borin fyrir honum.“

Hugsa til hans á hverjum degi

„Óli var kóngurinn,“ segir Árni Sæberg ljósmyndari sem kynnist Óla K. árið 1980.

„Við Óli vorum miklir vinir og áttum mörg sameiginleg áhugamál, eins og flug og bátar og ljósmyndun. Hann var algjör töffari og skemmtilegur karl, svakalega flottur ljósmyndari og mikill fréttaaflari. Hann þekkti allt og alla,“ segir Árni og segir Óla hafa kennt sér ýmislegt.

„Hann kenndi mér að ef maður kæmi á vettvang, til dæmis í bruna, ætti maður alltaf fyrst að taka mynd þar sem þú staðsetur þig, þannig að það sjáist á mynd hvar þetta er. Svo geturðu farið að taka nærmyndir,“ segir hann.

„Mig dreymdi svo fyrir andláti hans. Í draumnum vorum við öll á ljósmyndadeildinni við langborð og öll svartklædd nema Óli, sem var í náttfötum. Hann lést í svefni tveimur dögum síðar,“ segir Árni.

„Ég er með mynd af honum í myrkrakompunni minni og hugsa til hans á hverjum degi.“

Leit á mig sem uppeldisson

„Ég var búinn að vera með ljósmyndadellu síðan ég var níu ára og man að þegar ég sá Óla K. á förnum vegi var það eins og að sjá Elvis Presley. Ég kom inn á Mogga þegar ég var sextán ára strákur og ákvað að prófa að biðja um sumarvinnu. Mér var sagt að enga vinnu væri að fá og fór út. Þá kom Óli hlaupandi fyrir hornið og sagði við mig, „rosalega ertu með fína myndavél!“ en ég var þá með Leicuna hans pabba. „Hvað get ég gert fyrir þig ungi maður?“ spurði hann og ég svaraði að ég hefði ætlað að sækja um vinnu en það hefði ekki borið árangur. Hann sagði þá að það vantaði mann í sportið og ég fór um kvöldið að mynda fótboltaleik. Það var bara flottasta íþróttamynd sem ég hef tekið,“ segir Ragnar Axelsson hlæjandi.

Margir nefndu þessa skemmtilegu mynd af Louis Armstrong að raka …
Margir nefndu þessa skemmtilegu mynd af Louis Armstrong að raka sig þegar beðnir að nefna eftirminnilega mynd eftir Óla K. Morgunblaðið/ÓKM

Þar með hófust kynni hans af Óla K.

„Hann var frábær kall og kenndi mér margt. Ég á honum allt að þakka. Hann leit á mig sem sinn uppeldisson og tók mig að sér. Hann sýndi okkur mikinn velvilja þótt við hefðum stundum verið mikilir grallarar á deildinni,“ segir hann og nefnir að allir hafi borið virðingu fyrir Óla.

„Ég er mjög glaður að þessi bók sé að koma út; hann fær þá virðingu sem hann á skilið.“

Ítarlega er fjallað um líf og ljósmyndir Ólafs K. Magnússonar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert