Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur lést 16. nóvember eftir skammvinn veikindi, á 69. aldursári.
Kristinn Haukur fæddist í Reykjavík 18. febrúar 1956. Foreldrar hans voru Kristín Guðmundsdóttir híbýlafræðingur og Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt. Tvíburasystir Kristins er Ragnhildur landslagsarkitekt og bróðir þeirra er Ögmundur arkitekt.
Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð hóf Kristinn nám í líffræði við Háskóla Íslands og lauk hann síðar meistaranámi í dýravistfræði frá Wisconsin-háskóla í Madison í Virginíuríki í Bandaríkjunum.
Kristinn Haukur hóf störf hjá Náttúrufræðistofnun Íslands strax á námsárum sínum undir leiðsögn dr. Finns Guðmundssonar fuglafræðings og starfaði hjá stofnuninni að námi loknu í ríflega þrjá áratugi.
Þar gegndi hann m.a. starfi sérfræðings og síðar var hann yfir fagsviði dýrafræði þar sem hann stýrði ýmsum lykilrannsóknum á vettvangi stofnunarinnar.
Eftir Kristin Hauk liggur fjöldi ritrýndra greina og bókarkafla um fuglafræði og náttúrufræðileg málefni.
Jafnframt vísindastörfum sínum lagði hann ríka áherslu á að miðla þekkingu sinni til almennings á skýran og einfaldan hátt og virkja þannig áhuga fólks á öllum aldri á fjölbreytni og mikilvægi íslenskrar náttúru, einkum þó fugla.
Kjörsvið Kristins Hauks var íslenski haförninn. Rannsóknir hans á lífsháttum og búsvæðum arnarins skipuðu honum í fremstu röð þeirra er fjölluðu um vöxt og viðgang arnarstofnsins á alþjóðavettvangi.
Eftirlifandi eiginkona Kristins Hauks er Unnur Steina Björnsdóttir læknir og eru börn þeirra Kristín Helga þroskaþjálfi og Björn saxófónleikari. Eiginkona Björns er Georgiana hagfræðingur og dóttir þeirra er Unnur Dóra.