„Ég er náttúrulega alveg ósammála“

Þórarinn segir að lögfræðingar nefndarsviðs hafi metið sem svo að …
Þórarinn segir að lögfræðingar nefndarsviðs hafi metið sem svo að breytingar væru löglegar. Samsett mynd

Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar, er ósammála niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að afgreiðsla búvörulaga á Alþingi í vor, þar sem kjötaf­urðastöðvum var meðal ann­ars veitt und­anþága frá sam­keppn­is­lög­um, hafi stangast á við stjórnarskrá.

Eft­ir að mat­vælaráðherra hafði lagt fram frum­varp um breyt­ing­ar á bú­vöru­lög­um gerði at­vinnu­vega­nefnd um­tals­verðar breyt­ing­ar á frum­varp­inu sem vörðuðu meðal ann­ars um­rædda und­anþágu.

Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að ekki gera mætti svo miklar breytingar frumvarpi í meðförum þingsins að í raun sé um nýtt frumvarp að ræða.

„Ég er í sjálfu sér ósammála því [niðurstöðunni]. Tilgangur málsins sem kom úr atvinnuveganefnd og tilgangur upphaflega málsins frá matvælaráðherra er sá sami. Það er að segja að ná fram hagræðingu í afurðasölugeiranum til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Tilgangurinn er sá sami,“ segir Þórarinn í samtali við mbl.is. 

Lögfræðingar mátu sem svo að afgreiðslan væri í lagi

Hann útskýrir að þegar breytingar eru gerðar í nefndum þá fari lögfræðingar nefndarsviðs ítarlega yfir þær til þess að ganga í skugga um að þær fari ekki út fyrir lagaramma. Það hafi líka gerst í þessu tilfelli.

„Áður en við tókum málið út úr nefndinni var farið yfir það af þessum lögfræðingum, hvort að málið stæðist og það var niðurstaðan að svo væri. Þar af leiðandi hélt málið áfram,“ segir Þórarinn.

„Þar af leiðandi kemur þetta mér í sjálfu sér á óvart.“

Ósammála túlkun héraðsdóms

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að samkvæmt upphaflega frumvarpinu hafi verið stefnt að því að breyta 5. og 6. grein bú­vöru­laga með það í huga að efla hags­muni bænda, en laga­breyt­ing­in eins og hún var samþykkt á Alþingi, eft­ir breyt­ing­arn­ar, sé í þágu afurðastöðva með það að mark­miði að efla rekstr­ar­skil­yrði þeirra, með sam­starfi, samruna og með því að reyna að nýta þann sam­taka­mátt sem geti fal­ist í því þegar svona fyr­ir­tæki vinni sam­an, en þar er vísað í orð for­manns nefnd­ar­inn­ar þegar hann mælti fyr­ir breyt­ing­ar­til­lög­um nefnd­ar­inn­ar á Alþingi.

„Aug­ljóst er að ólík­ir aðilar njóta góðs af,“ seg­ir í dóm­in­um.

Spurður hvort að þetta sé ekki of mikil breyting á frumvarpinu, miðað við túlkun héraðsdóms, segir Þórarinn:

„Ég er náttúrulega alveg ósammála þessari túlkun og það kemur mjög vel fram í nefndaráliti atvinnuveganefndar varðandi tilgang málsins og hver ávinningurinn á að vera fyrir bændur og neytendur. Þannig þarna greinir okkur á og það var einhugur um þetta í meirihluta nefndarinnar hvað þetta varðar,“ segir Þórarinn.

Eðlilegt að Samkeppniseftirlitið áfrýi

Honum finnst eðlilegt að Samkeppniseftirlitið áfrýi niðurstöðu héraðsdóms, þó hann taki það fram að Samkeppniseftirlitið þurfi að svara fyrir það.

Á grund­velli þess­ara und­anþágu­heim­ilda sem lögin tryggðu hef­ur KS m.a. yf­ir­tekið Kjarna­fæði Norðlenska og í fjöl­miðlum hef­ur ný­lega verið greint frá mögu­leg­um kaup­um fé­lags­ins á B. Jensen, sem rek­ur slát­ur­hús og kjötvinnslu.

Spurður hvort að ríkið verði mögulega skaðabótaskylt ef Samkeppniseftirlitið myndi gera athugasemd og kaupum KS á Norðlenska rift segir Þórarinn:

„Nú get ég bara ekki svarað þessu og það verða nú aðrir þartilbærir einstaklingar að svara því. Verðum við ekki að leyfa deginum að líða allavega og sjá hvernig málið þróast og hvert farið farið verður með málið,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert