Ekki taka samkeppnina úr sambandi

Magnús Óli Ólafsson.
Magnús Óli Ólafsson. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, segir að málshöfðun fyrirtækisins gagnvart Samkeppniseftirlitinu hafi ekki beinst að einstökum fyrirtækjum eða athöfnum þeirra, heldur hafi fyrst og fremst verið til þess hugsuð að leitast við að tryggja jafnræði fyrirtækja í samkeppni. 

Það er að segja, að ekki sé verið að veita hluta af viðskiptalífinu undanþágu frá ströngum reglum sem keppinautar viðkomandi fyrirtækja verða að undirgangast, að viðlögðum refsingum.

Magnús Óli segir í tilkynningu á vef Félags atvinnurekenda, að þá sé erfitt fyrir fyrirtæki, sem hafi varið miklum fjármunum og vinnu til að stækka og ná hagræðingu með kaupum eða sameiningu við önnur félög og þurft að undirgangast stranga skoðun og skilyrði samkeppnisyfirvalda, að horfa upp á að sameiningar keppinauta lúti engu slíku eftirliti eða skilyrðum.

„Breytingar á búvörulögunum áttu að færa neytendum ábata, en það er fyrst og fremst virk samkeppni sem er til hagsbóta fyrir neytendur, ekki að taka hana úr sambandi,“ er haft eftir Magnúsi Óla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert