Kýldi starfsmann eftir búðarhnupl

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglunni á Hverfisgötu barst tilkynning um árás í matvöruverslun í Reykjavík. Að sögn starfsmanna ætlaði einstaklingur að stela matvöru úr versluninni en var stöðvaður af starfsmanni. Þjófurinn kýldi þá starfsmanninn og fór út úr versluninni með matvöruna. Leitað var að honum nærri vettvangi en án árangurs.

Í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var tilkynnt um hnupl úr matvöruverslun. Þjófurinn var enn á staðnum þegar lögreglan kom á vettvang. Hann var látinn laus að lokinni vettvangsskýrslu.

Vinnuslys í miðbænum

Tilkynnt var um vinnuslys í miðbæ Reykjavíkur þar sem iðnaðarmaður hafði lent illa á fæti. Hann var fluttur til frekari aðhlynningar á slysadeild, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Sagðist hafa neytt fíkniefna 

Ökumaður var stöðvaður við umferðareftirlit lögreglunnar á Vínlandsleið. Hann sagðist síðast hafa neytt fíkniefna um morguninn en dró það síðan til baka. Munnvatnssýni var jákvætt vegna fíkniefna og var ökumaðurinn handtekinn og fluttur á lögreglustöð en látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.

Heimilislausir fengu að gista í fangaklefa

Á tveimur stöðum var tilkynnt um óvelkomna menn og neitaði annar þeirra að fara. Báðir eru þeir heimilislausir og hafa komið við sögu lögreglu áður. Gistiskýli Reykjavíkurborgar neituðu að taka við þeim þar sem annar þeirra var ekki gjaldgengur þar og hinn í banni. Báðir óskuðu þeir eftir að komast í klefa á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Þeim var veitt skjól yfir nóttina þar sem mjög kalt er úti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert