Birta Hannesdóttir
Kennarar í Menntaskólanum í Reykjavík bættust á miðnætti í hóp þeirra kennara sem eru í verkfalli. Fyrir voru verkfallsaðgerðir í níu skólum; fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Verkfallsaðgerðir hafa staðið yfir síðan 29. október og útlit fyrir að þær verði eitthvað áfram.
Í samtali við Morgunblaðið segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari að vinnufundir með samningsaðilum hafi farið fram um helgina og að deilunni miði ágætlega. Næsti formlegi samningafundur Kennarasambands Íslands (KÍ) með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd ríkisins er boðaður á morgun. Síðasti formlegi fundur var laugardaginn 2. nóvember.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að vinnufundir helgarinnar hafi gengið vel. Samningsaðila greini enn mest á um launaliðinn en KÍ gerir þá kröfu að laun séu í samræmi við aðra sérfræðinga á almennum vinnumarkaði.
Alls eru boðaðar verkfallsaðgerðir í 13 skólum um land allt en næsta mánudag bætast við þrír grunnskólar. Það eru Árbæjarskóli í Reykjavík, Garðaskóli í Garðabæ og Heiðarskóli í Reykjanesbæ.
Þær aðgerðir eru tímabundnar og standa að öllu óbreyttu til 20. desember.
Spurður hvort hann sé vongóður um að það takist að semja fyrir þann tíma segir Magnús ómögulegt að spá svona fram í tímann.
„Þetta er rætt svona frá degi til dags þannig að ég held að það sé alveg vonlaust að spá um það akkúrat núna.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.