María Rut Kristinsdóttir, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, hefur verið aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur en leiðir nú lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi og stefnir inn á þing.
„Mér sýnist vera að teiknast upp ákveðin mynd hérna og það skiptir ekki máli hvert ég fer, ég sest niður með kaffibolla og spyr fólk: „Hvað liggur þér á hjarta og hvað er að frétta?“ Og það líða ekki margar mínútur þar til fólk fer að tala um samgöngumál við mig,“ segir hún spurð hvað skipti kjósendur í kjördæminu mestu máli en segir efnahagsmálin einnig vega þungt hjá kjósendum út um allt land.
Á Akranesi tala kjósendur um Sundabraut í Reykjavík, segir María, en í Borgarnesi og á Snæfellsnesi tala kjósendur um ástandið á Fróðárheiði og á Skógarstrandarveginum. Hún nefnir fleiri samgönguinnviði í kjördæminu sem þurfi að bæta.