„Þetta gerist alltaf þegar svona kemur upp, það tekur tíma að útrýma öllum litlum afkvæmum,“ segir Guðmundur Þór Sigurðsson, deildarstjóri fasteigna og umhverfisþjónustu Landspítalans. Nokkur tilvik hafa komið upp að undanförnu þar sem kakkalakkar hafa fundist á Landspítalanum.
Eins og fram kom í fréttum dreifðu kakkalakkar sér um nýrnadeild Landspítalans snemma í sumar. Þeir komu í farangri ferðamanns sem var að koma frá Afríku. Þá var haft eftir Guðmundi að tekist hefði að ráða örlögum kakkalakkanna með hjálp meindýraeyðis.
Nokkrum vikum síðar fundust kakkalakkar þó enn skríðandi um á nýrnadeildinni. Og nú er ljóst að þessar harðgerðu skepnur, sem munu vera af þýsku kyni, eru enn þar.
„Því miður finnst alltaf einn og einn á meðan við erum að klára öll egg sem þeir leggja. En þetta er enginn faraldur, við erum með stjórn á þessu,“ segir Guðmundur sem játar að þetta sé hvimleitt vandamál en segir að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af starfsemi spítalans.