Margfalda greiðsluþátttöku í fyrstu meðferð

Nýja fyrirkomulagið myndi fela í sér fastan krónutölustyrk í stað …
Nýja fyrirkomulagið myndi fela í sér fastan krónutölustyrk í stað prósentuhlutfalls og greiðsluþáttöku sem nemur 150 þúsund krónum fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400 þúsund krónum fyrir hverja meðferð frá 2.-4. meðferð. Ljósmynd/Colourbox

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur birt í samráðsgátt drög að nýrri reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir, sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Frá þessu er greint í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Reglugerðin kveður á um aukna greiðsluþátttöku en samkvæmt núgildandi reglugerð er greiðsluþátttaka 5% vegna fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferðar, sem nemur 24 þúsund krónum, og 65% af 2.-4. meðferð, sem nemur 312 þúsund krónum.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Krónutölustyrkur

Nýja fyrirkomulagið myndi fela í sér fastan krónutölustyrk í stað prósentuhlutfalls og greiðsluþátttöku sem nemur 150 þúsund krónum fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400 þúsund krónum fyrir hverja meðferð frá 2.-4. meðferð.

Þá er sérstaklega tekið fram að tæknisæðing falli undir gildissvið reglugerðarinnar.

„Með breytingunum yrði greiðsluþátttaka í fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð aukin sexfalt og þátttaka sjúkratrygginga í meðferðum 2-4 aukin um tæpar 90 þús. kr. í hverri meðferð. Hærri greiðsluþátttaka yrði þeim einstaklingum, sem sækja þessa kostnaðarsömu þjónustu, til verulegra hagsbóta auk þess sem fjárhæð greiðsluþátttöku verður fyrirsjáanlegri en áður með föstum styrkjum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Umsagnarfrestur er til 2. desember en stefnt er að því að reglugerðin taki gildi 1. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert