Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að komin sé upp flókin staða í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um að afgreiðsla búvörulaganna hefði verið í andstöðu við stjórnarskrá.
SKE hefur ekki tekið ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað en kjötafurðastöðvar sem vilja kaupa aðrar kjötafurðastöðvar skulu hætta slíkri vinnu að beiðni SKE.
„Þetta er bara flókin staða sem ekki bara við heldur neytendur, bændur og afurðastöðvarnar sjálfar þurfa að vinna út úr. Það þarf að gefa sér aðeins andrúm til þess að átta sig á því hvernig eigi að vinna úr henni,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins (SKE), í samtali við mbl.is um stöðuna sem upp er komin.
SKE sendi kjötafurðastöðum og samtökum þeirra bréf í dag vegna dómsins þar sem sagði að undanþágur sem voru veittar með lögunum – en kjötafurðastöðvum var meðal annars veitt undanþága frá samkeppnislögum – væru ekki í gildi vegna dómsins.
Samkeppnislög gilda því fullum fetum um samstarf og samruna kjötafurðastöðva.
„Það sem við vildum gera strax er að gera þeim grein fyrir því að það væri hættuspil að halda áfram með aðgerðir sem byggja á þessum undanþágum sem núna er komið í ljós – samkvæmt dóminum – að höfðu ekki lagagildi. Við vildum koma því skýrt á framfæri. Það er að segja að allar aðgerðir, hvort sem þær líta að samruna eða samstarfi fyrirtækja, þá ber þessum kjötafurðastöðvum sem í hlut eiga að stöðva,“ segir Páll.
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hygðist kaupa fjölskyldufyrirtækið B. Jensen sem rekur sláturhús, kjötvinnslu og verslun við Lónsbakka, við landamæri Hörgársveitar og Akureyrar.
Eru þið þá í raun að segja þeim að halda ekki áfram á meðan þessi dómur liggur fyrir?
„Já,“ svarar hann.
Eftir stendur spurningin hvort að SKE muni áfrýja málinu. Samtök fyrirtækja í landbúnaði fara til dæmis fram á það við SKE að málinu verði áfrýjað.
Hallist þið að því að áfrýja málinu?
„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það. Það er eitt af því sem við erum og þurfum að vega og meta ásamt með öðru. Þess vegna töldum við rétt líka að setja tilkynningu á netið hjá okkur, bæði til þess að leiðbeina og gera kjötafurðastöðvum grein fyrir því hvernig við lítum á málið á þessu stigi. Bæði gefa þeim og öðrum hagsmunaaðilum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum á framfæri og svo sjáum við til hvernig teflist úr þessu,“ segir Páll.
Hluthafar í Kjarnafæði Norðlenska hf. samþykktu tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf. í júlí. Spurður hvað gerist núna um kaupin segir Páll:
„Það á bara eftir að taka afstöðu til þess. Það er eitthvað sem bæði fyrirtækin sjálf og síðan við í framhaldinu þurfum að taka afstöðu til eftir atvikum, en það er bara ekki tímabært núna.“
Hann kveðst ekki hafa neina skoðun á því hvort að dómur héraðsdóms hafi komið honum á óvart.
Í minnisblaði frá skrifstofu Alþingis til atvinnuveganefndar á sínum tíma kom fram að afgreiðsla búvörulaganna væri ekki í andstöðu við stjórnarskrá.