Samtals sjö íbúðir af 160 hafa selst á sex þéttingarreitum í Reykjavík síðan í byrjun síðasta mánaðar. Raunar hefur engin íbúð selst á þremur þessara reita.
Meðal þeirra er Snorrabraut 62, 35 íbúða fjölbýlishús sem reist var við hlið Blóðbankans.
Kristinn Geirsson, framkvæmdastjóri félagsins sem byggði húsið, segir að vegna dræmrar sölu hafi íbúðirnar verið teknar úr sölu.
„Við kláruðum að selja ódýrustu íbúðirnar og svo dó þetta. Við höfum sett nánast allar íbúðirnar í leigu og erum hættir að spá í þetta af því að dýrari íbúðirnar seljast ekki. Það er vonlaust að reyna það,“ segir Kristinn um ganginn á markaðnum.
Gunnar Sverrir Harðarson, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Remax, segir búið að selja 24 af 84 íbúðum á Grandatorgi í Vesturbæ Reykjavíkur síðan salan hófst um miðjan ágúst. Það teljist gott miðað við aðstæður á markaði.
„Það bíða allir eftir vaxtalækkun og kosningum. Svo myndi ég halda að það færðist fjör í leikinn á nýju ári,“ segir Gunnar Sverrir um stöðuna.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.