Skiptar skoðanir frambjóðenda um laun kennara

Frá fundinum í Stakkahlíð í dag.
Frá fundinum í Stakkahlíð í dag. mbl.is/Eyþór

Stjórnmálaflokkar í framboði til Alþingis eru allir á einu um mikilvægi þess að samið verði við kennara og að samkomulag frá árinu 2016 verði virt, ef marka má svör fulltrúa þeirra á opnum fundi Kennarasambands Íslands um menntamál í kvöld.

Fulltrúarnir leggja aftur á móti mismunandi skilning í hvað felst í því að virða þetta samkomulag. Þá eru þeir með misjafnar skoðanir á hvort að veita eigi ríkissáttasemjara rýmri valdheimildir.

Fundurinn var haldinn í Skriðu, sal menntavísindasviðs í Stakkahlíð. Frambjóðendur tíu stjórnmálaflokka mættu til að ræða sína sýn á menntamálin og kjör kennara:

  • Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður fyrir Flokk fólksins
  • Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn
  • Bryndís Haraldsdóttir þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn
  • Halldóra Mogensen þingmaður fyrir Pírata
  • Hrafnhildur Sigurðardóttir kennari fyrir Lýðræðisflokkinn
  • María Pétursdóttir myndlistarkona og öryrki fyrir Sósíalistaflokkinn
  • Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður fyrir Miðflokkinn
  • Svandís Svavarsdóttir þingmaður og formaður VG fyrir Vinstri græn
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður og formaður Viðreisnar fyrir Viðreisn
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður fyrir Samfylkinguna

Virða samkomulagið en horfa til meira en launa

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, stýrði umræðunni og spurði hann meðal annars fulltrúa flokkanna hvort þeim fyndist að standa ætti við samkomulagið sem gert var við kennara árið 2016.

Bryndís Haraldsdóttir tók fyrst til máls og sagði að virða ætti samkomulagið.

Aftur á móti teldi hún mikilvægt að þegar kjör væru jöfnuð milli markaða væri horft til meira en aðeins launa, til að mynda réttinda og hlunninda sem starfsmenn á opinberum markaði hafi umfram aðra. 

Afstaðan vakti hörð viðbrögð félagsmanna KÍ í salnum sem púuðu á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, sem jafnframt er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, og vildu fá að vita hvað hún ætti eiginlega við með þessum ummælum.

Kallað úr salnum

Bryndís benti á að hægt væri að nálgast upplýsingarnar í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þá nefndi hún jafnframt starfsöryggi kennara sem dæmi og benti á að á tímum samkomutakmarkana stjórnvalda hefði fjöldi manns misst vinnu sína í hópuppsögnum á meðan kennarar héldu vinnu sinni.

Svarið vakti ekki kátínu fundargesta. „Við vorum framlínustarfsmenn,“ heyrðist meðal annars kallað úr salnum.

Bryndís ítrekaði að það ætti að meta störf kennara að verðleikum en við yrðum að horfa á heildarmyndina. Þá sagðist hún heldur ekki vilja lofa upp í ermina á sér heldur vera hreinskilin.

Kvennastörf vanmetin

Enginn kvaðst mótfallinn því að samkomulagið við kennara yrði virt.

Mikil áhersla var lögð á að kennarastéttin væri kvennastétt og að kvennastörf væru kerfisbundið vanmetin. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, talaði fyrir því að markvisst virðismeta störf, þar á meðal kennara. Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, tók undir. 

Laun á við þingmenn

Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari og frambjóðandi fyrir Lýðræðisflokkinn, rifjaði upp að eitt sinn hefðu kennarar verið á sömu launum og þingmenn. Væri hún til í að sjá það í dag.

Jakob Frímann, frambjóðandi Miðflokksins, sagðist alveg vera til í að prófa það fyrirkomulag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert