„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að afgreiðsla Alþingis á búvörulögunum hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá ekki hafa komið á óvart. 

Dómurinn sé algjörlega í takt við það sem stjórnarandstaðan hafi vakið athygli á er málið var til umræðu í þinginu á sínum tíma og viðamiklar breytingar voru gerðar á lagatextanum sem gengu gegn upphaflegu markmiði frumvarpsins.

Þá hafi Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, verið áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd og óskað eftir því við formann nefndarinnar að málið yrði tekið aftur inn í nefndina og vísað til ráðuneytisins. Því var þó hafnað.

Voru reiðubúin að styðja breytingar

„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.

„Við í Samfylkingunni vorum alveg tilbúin að styðja breytingar sem hnykktu á því að þessi undanþáguheimild tæki til afurðastöðva sem voru að hluta eða öllu leyti í eigu bænda. Um það snerist upphaflega umræðan og málið átti að snúast um.

Þessu meira að segja var lýst yfir í nefndaráliti en svo kemur einmitt á daginn þegar að málið fer í aðra umræðu að lagatextinn sem var lagður til, og reyndist bara saminn af lögfræðingum afurðastöðvanna, gekk algjörlega í hina áttina.“

Um nýtt mál var að ræða

Hún segir Samfylkinguna hafa beitt sér harkalega fyrir því við aðra umræðu málsins að málið yrði tekið aftur til umfjöllunar og samráðs í atvinnuveganefnd og vísað til ráðuneytisins. Eins og áður kom fram var því hafnað.

„Frumvarpið var búið að taka það miklum breytingum að um nýtt mál var að ræða,“ segir Kristrún og heldur áfram: „Það kom mjög skýrt fram af hálfu minnihlutans í nefndinni og í þinginu.“

Þá bendir hún á að í dómi héraðsdóms hafi sérstaklega verið vitnað í ræðu Jóhanns Páls.

Í dómnum kemur fram að þingmaður úr stjórnarandstöðunni hafi farið fram á að málið yrði kallað aftur inn í nefnd og þá einkum vegna þess að þær breytingar sem voru gerðar í meðförum nefndarinnar hefðu verið svo viðurhlutamiklar að í raun væri þingið komið með nýtt frumvarp í hendurnar sem ætti með réttu að senda út til umsagnar.

Engu samræmi við yfirlýst markmið

„Ekkert af því sem er að koma fram núna kemur okkur á óvart. Þetta var upplifun okkar í Samfylkingunni við vinnslu þessa máls. Það liggur alveg fyrir að lagatextinn sem þarna var lagður til var í engu samræmi við upphaflega yfirlýst markmið frumvarpsins og það er mjög alvarlegt þegar það er verið að krukka svona í málum í nefndinni. 

Þetta er mjög stórt mál og yfirgripsmikið og við í Samfylkingunni höfum stutt það að það verði ráðist í breytingar á búvörulögum sem styrkja stöðu bænda fyrst og fremst en því miður þá urðu afleiðingarnar af þessu máli þær að við höfum farið að sjá sameiningar sem eru ekki í þágu bænda að mínu mati. Og síðan núna stöndum við frammi fyrir því að það er búið að samþykkja lög á Alþingi af meirihlutanum sem standast ekki stjórnarskrá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert