Ekki sátt með tilkynningu á vef KÍ

Leikskólakennarar í fjórum leikskólum hafa lagt niður störf ótímabundið.
Leikskólakennarar í fjórum leikskólum hafa lagt niður störf ótímabundið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðný Hrafnkelsdóttir, móðir leikskólabarns á Drafnarsteini, segir óheiðarlegt af Kennarasambandi Íslands að hafa birt tilkynningu þar sem fram kemur að foreldrar barna í leikskólum, þar sem kennarar hafa lagt niður störf, lýsi ótvíræðum stuðningi við kjarabaráttu kennarra og rétt þeirra til að fara í verkfall.

Hún segir aðeins hluta foreldra barna á þessum leikskólum styðja þær verkfallsaðgerðir sem nú séu í gangi og að ekki sé rétt að orða tilkynninguna með þeim hætti að lesa megi úr henni að allir foreldrar lýsi þessum stuðningi. Hefur hún óskað eftir að orðalaginu verði breytt.

Guðný kveðst styðja kjarabaráttu kennara og þeirra verkfallsrétt en aftur á móti styðji hún ekki hvernig staðið sé að verkfallinu á leikskólastigi sem bitni aðeins á hópi leikskólabarna. Segir hún fleiri foreldra barna á leikskólunum sem um ræðir vera sama sinnis.

Foreldri leikskólabarns á Leikskóla Seltjarnarness sem mbl.is ræddi við tekur undir og kveðst vita til þess að margir foreldrar séu ósáttir með hve ónákvæmt orðalagið sé í tilkynningu KÍ.

Það sé ekki nógu skýrt hverjir það séu sem lýsi stuðningi við verkfallsaðgerðirnar.

Foreldrar lýsa ótvíræðum stuðningi

Leikskólarnir sem um ræðir eru Leikskóli Seltjarnarness, Drafnarsteinn, Holt og Ársalir. Um 600 börn eru á leikskólunum fjórum. Ríflega 140 hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsinguna á Ísland.is.

Foreldri barns á einum leikskólanna sendi KÍ stuðningsyfirlýsinguna. Sambandið greindi frá yfirlýsingunni á vef sínum í gær.

Segir orðrétt á vef KÍ: 

„Foreldrar barna í Leikskóla Seltjarnarness, Drafnarsteini, Holti og Ársölum lýsa ótvíræðum stuðningi við kjarabaráttu kennara og rétt þeirra til að fara í verkfall. Foreldarnir hafa sent stuðningsyfirlýsingu til samningsaðila Kennarasambandsins í yfirstandandi kjaradeilu.“

Klaufalega að þessu staðið

Guðný segir ásetning foreldranna sem sendu stuðningsyfirlýsinguna ekki hafa verið illan, heldur hafi verið klaufalegt hvernig að þessu var staðið.

Aftur á móti hafi verið óheiðarlegt af kennarasambandinu að slá yfirlýsingunni upp með slíkum hætti á vefsíðu sinni. KÍ viti betur.

Þá bendir hún á að ríflega 700 foreldrar hafi ritað undir áskorun á hendur KÍ um að láta af „mismunun barna og broti á réttindum þeirra“ með verkfallsaðgerðunum sem nú eru viðhafðar þar sem aðeins er tímabundið verkfall í fjórum leikskólum af tæplega 270 á landinu öllu. 

„Við sýnum kjarabaráttu kennara mikinn skilning og efumst ekki um rétt þeirra til að fara í verkfall. Við erum á hinn bóginn verulega ósátt við fyrirkomulag Kennarasambands Íslands á verkfalli sem hófst þann 29. október sl. og teljum það ólögmætt,“ segir í þeirri áskorun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert