Hrauntungan sem rann yfir Grindavíkurveg og heitavatnslögnina vestan hans í morgun hefur haldið áfram að renna til vesturs. Hraunið hefur nú náð lengra til vesturs en hrauntungur fyrri eldgosa.
Vakin er athygli á þessu í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Þar segir að virkni eldgossins sem hófst seint í gærkvöldi virðist nú vera nokkuð svipuð virkninni í morgun. Jarðskjálftavirkni og aflögun á gosstöðvunum mælist mjög lítil.
„Fyrstu mælingar benda til þess að rúmmál kviku sem streymdi frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina sé tæplega helmingur af því rúmmáli sem flæddi frá Svartsengi í eldgosinu þann 22. ágúst. Nánari niðurstöður fást á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.
Um hádegi náði hraunið inn á bílastæði við Bláa lónið og er enn á hreyfingu. Framrásarhraði hraunsins var metinn rúmlega 100 metrar á klukkustund á milli kl. 12.09 og 13.35.
Hreyfimyndin hér að neðan sýnir framrás hraunsins á milli kl. 12.30 og 12.50 í dag.