Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt mann í skilorðsbundið fangelsi til þriggja mánaða og greiðslu skaðabóta og málskostnaðar eftir sérstaklega hættulega líkamsárás í ágúst 2022 við Ráðhús Árborgar á Selfossi.
Maðurinn var sagður hafa slegið brotaþola að minnsta kosti einu sinni í höfuðið með hellusteini sem vó samtals 2.830 g með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut nefbrot, blæðingu undir húð og sár á enni, skurð á vinstra eyra, bólgu undir vinstra auga og blæðingu í auga vinstra megin.
Brotaþoli krafðist þess að ákærði greiði honum skaðabætur að fjárhæð 1.121.832 kr., auk vaxta af 800.000 kr. og greiðslu málskostnaðar.
Maðurinn neitaði sök og krafðist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds og að bótakröfu yrði vísað frá dómi.
Tilkynnt var um tvo menn að slást fyrir framan Ráðhús Árborgar en fram kom í tilkynningunni að annar maðurinn væri með stein í hendi.
Tveir lögreglumenn mættu á vettvang og komu að brotaþola og konu með honum í för. Var brotaþoli útataður blóði og tóku lögreglumennirnir eftir blóði á vegg ráðhússins og múrsteini þar við jörðu.
Brotaþoli og konan lýstu manninum sem var sagður vera í stórum gallajakka með snoðað hár eða sköllóttur, en brotaþoli var sagður þvoglumæltur og með óstöðugt jafnvægi í lögregluskýrslu.
Að sögn brotaþola var sá ákærði ósáttur við að konan sem var með honum í för hafi ætlað með honum í leigubíl og að fyrir vikið hafi ákærði slegið brotaþola með múrsteini. Brotaþoli segir manninn hafa slegið sig með múrsteini tvisvar eða þrisvar í andlitið. Brotaþoli reyndi að verjast en maðurinn hljóp í burtu skömmu eftir árásina.
Samkvæmt vitnisburði konunnar hafi hún verið að ganga með vini sínum, brotaþola, og að þau hafi ætlað að deila leigubíl. Hafi þau þá gengið fram hjá ókunnugum manni sem hafi komið til þeirra og sagt við brotaþola: „Látið hana í friði“ áður en hann veittist að brotaþola með múrsteini.
Maðurinn sagði við skýrslutöku ekki muna eftir atvikinu en að hann hefði lent í átökum við annan mann sem hefði verið að brjóta á stúlku sem var ítrekað búin að biðja hann um að láta sig í friði.
Hann neitaði því að hafa veist að brotaþola með múrsteini, öllu heldur hafi hann gengið upp að fólkinu og átt orðaskipti við það og síðan hafi komið til átaka á milli hans og brotaþola.
Dómurinn taldi ekki sannað að maðurinn hefði slegið brotaþola með hellusteini en að greinilegt væri að maðurinn hefði veist að brotaþola með þeim afleiðingum að brotaþoli féll til jarðar.
Þannig telur dómurinn það sannað að maðurinn hafi átt upptök að átökunum.
Manninum er gert að sæta skilorðsbundnu fangelsi til þriggja mánaða og greiðslu skaðabóta til brotaþola að fjárhæð 400.000 kr. með vöxtum.
Einnig skal hann greiða 300.000 kr. í málskostnað og tvo þriðju hluta sakarkostnaðar að fjárhæð 492.066 kr. og tvo þriðju hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns sem í heild nema 685.100 kr. og tvo þriðju hluta ferðakostnaðar hans sem í heild nema 32.712 kr.