Eitt af baráttumálum Kennarasambands Íslands í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir er að leikskólastigið fái meiri athygli. Að það verði lögbundið og gert að skylduverkefni sveitarfélaga.
Eins og staðan er í dag gætu sveitarfélög tekið ákvörðun um að loka leikskólum, án þess að lög væru brotin. Ekki er skólaskylda í leikskólum líkt og í grunnskólum og því gætu sveitarfélögin komist upp með slíkan gjörning, þó að vissulega væri ólíklegt að það myndi laða fjölskyldufólk að sveitarfélaginu.
Forysta KÍ vill vekja athygli á þessari mismunun á milli skólastiga og er það ástæðan fyrir því að farið var í ótímabundin verkföll í leikskólum en tímabundin í grunnskólum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari forystu KÍ til foreldris sem óskaði skýringa á fyrirkomulagi verkfallsaðgerða. Foreldrar, þá sérstaklega foreldrar leikskólabarna á þeim fjórum leikskólum þar sem verkföll standa yfir, hafa gagnrýnt fyrirkomulagið og bent á að fámennum hópi barna og foreldra sé mismunað. Umboðsmaður barna telur einnig að um mismunun sé að ræða.
Forysta KÍ hefur ekki viljað taka undir þetta og ítrekað sagt að grípa hafi þurft til þessara aðgerða til að kennarar nái fram markmiðum sínum. Aðgerðirnar miðist að því að hætt verði að mismuna börnum með lágu hlutfalli fagmenntaðra kennara í sumum leikskólum.
mbl.is hefur ítrekað reynt að fá skýr svör frá forystu KÍ varðandi það hvers vegna verkföll voru útfærð með þessum hætti í leikskólum, en þau hafa ekki fengist. Þá hafa fjölmargir foreldrar sent pósta á forystuna, óskað skýringa og skorað á KÍ að breyta aðferðinni, eins og til dæmis með því að færa verkfallsaðgerðir á milli leikskóla, án þess að fá nokkur viðbrögð. Einhverjum foreldrum hefur þó augljóslega verið svarað með nokkuð greinargóðum skýringum.
Í því svari sem mbl.is hefur undir höndum kemur einnig fram að foreldrar, fyrir hönd barna sinna, hafi í raun engan skilgreindan rétt í lögum til leikskólakennslu, þrátt fyrir að leikskólinn sé samkvæmt lögum skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Sá réttur sé hins vegar til staðar í grunnskólum vegna skólaskyldunnar.
Foreldrið fékk einnig svar við því af hverju ekki var farið í allsherjarverkföll heldur skæruverkföll í nokkrum skólum og var svarið á þá leið að staðan í viðræðunum hefði líklega verið sú sama. Ekki þyrfti annað en að skoða sögu og lengd allsherjarverkfalla.
Vísað var til verkfalls grunnskóla kennara árið 2004 sem lauk eftir sex vikur með lagasetningu. Þar hafi samningsrétturinn verið tekin af kennurum og þeir með lögum neyddir til að snúa aftur til starfa. Í kjölfarið hafi stór hópur kennara sagt upp störfum. Því hafi verið ákveðið að grípa frekar til aðgerða í nokkrum skólum af öllum gerðum frekar en að stöðva allt skólastarf í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum.
Verkföll standa nú yfir í tíu skólum; fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, tveimur framhaldsskólum og einum tónlistarskóla.
Skólarnir sem um ræðir eru leikskólinn Drafnarsteinn í Reykjavík, Leikskóli Seltjarnarness, leikskólinn Holt í Reykjanesbæ, leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki, Áslandsskóli í Hafnarfirði, Laugalækjarskóli í Reykjavík, Lundarskóli á Akureyri, Framhaldsskóli Suðurlands á Selfossi, Menntaskólinn í Reykjavík og Tónlistarskólinn á Ísafirði.
Ástæðan fyrir því að þessir ákveðnu skólar voru valdir til að taka þátt í verkfallsaðgerðum er sú að aðildarfélögin töldu starfsfólk þeirra vera tilbúið í aðgerðir, en það kom fram í viðtali við formann KÍ á mbl.is eftir viku af verkföllum. Má því ætla að jarðvegurinn hafi verið kannaður áður en farið var í atkvæðagreiðslu um verkföll. Þá hefur hátt hlutfall fagmenntaðra í umræddum leikskólum eflaust líka haft einhver áhrif.
Magnús hefur ekki útilokað að kennarar í fleiri skólum bætist í hópinn, en hann hefur sagt að margir kennarar hafi lýst sig tilbúna til að taka þátt.
Í svarbréfi sem annað foreldri leikskólabarns fékk við fyrirspurn um útfærslu á verkfallsaðgerðum kemur fram að það komi sannarlega til greina að breyta um takt í aðgerðunum, beri viðræður ekki árangur næstu daga. En kveður þar við töluvert nýjan tón þar sem formaður KÍ hefur ítrekað sagt að þær aðgerðir sem nú standi yfir bíti og hafi skilað árangri.
Tímabundnum verkföllum lýkur í grunnskólunum þremur á morgun, en þann 25. nóvember bætast við aðrir þrír í staðinn; Árbæjarskóli í Reykjavík, Heiðarskóli í Reykjanesbæ og Garðaskóli í Reykjanesbæ. Ótímabundnum verkföllum lýkur svo þann 20. desember næstkomandi, en þá halda leikskólakennarar í leikskólunum fjórum áfram verkfallsaðgerðum, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Þá fara kennarar sem hafa verið í verkföllum aftur á launaskrá hjá ríki og sveitarfélögum.
Ekki hafa verið boðaðar frekari aðgerðir af hálfu KÍ en Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, sagði í samtali við mbl.is á mánudag, að forysta KÍ héldi spilum þétt að sér varðandi næstu skref. Ekki liggur því fyrir hvort atkvæðagreiðslur um frekari verkföll eru í undirbúningi, en komi til frekari aðgerða er ólíklegt að þær hefjist fyrr en á næsta ári, þar sem jólafrí stendur yfir á öllum skólastigum, fyrir utan leikskólastigið, fram í byrjun janúar.
Á þriðjudaginn var sest niður til formlegra viðræðna í kjaradeilunni eftir sautján daga hlé, og hefur verið fundað daglega síðan. Einhver gangur virðist því vera kominn í viðræðurnar, en samninganefndir hafa meðal annars fengið fræðslu frá sérfræðingi Jafnlaunastofu um virðismat starfa.
Deilurnar snúast fyrst og fremst um að samkomulag frá árinu 2016 verði efnt, en samningsaðilar deila um hvað felist í samkomulaginu og hvernig eigi að uppfylla það.
Að mati Kennarasambandsins snýst samkomulagið meðal annars um að grunnlaunasetning sérfræðinga í fræðslugeiranum og annarra sérfræðinga á opinberum markaði verði jafnsett launum á almennum markaði. Í því felst meðal annars að finna viðmiðunarhópa.
Ríkissáttasemjari hefur hins vegar sagt að það sé fullreynt að finna viðmiðunarhópa og því hefur verið reynt að nálgast málið með annarri aðferðafræði. Samningafundur hófst klukkan níu í morgun og gert er ráð fyrir að hann standi í allan dag.