„Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að þeirri „rányrkju“ sem Íslandsbanki ástundar á sínum viðskiptavinum en núna hefur bankinn hækkað breytilega verðtryggða vexti á húsnæðislánum um 0,80% á síðustu 63 dögum.“
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, í pistli sem hann birtir á Facebook. Hann bendir á að flesti heimili hafi verið þvinguð úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð vegna okurvaxta fjármálakerfisins enda standi ekkert heimili undir rúmlega 10% húsnæðisvöxtum. En upp undir 60% af húsnæðislánum heimilanna eru núna verðtryggð.
Hann segir að á tíma hafi stýrivextir lækkað um 0,75% og allir greiningaraðilar spá því að verðbólgan muni ganga hratt niður og verði jafnvel komin í 4,5% í þessum mánuði og niður í 3,8% í febrúar á næsta ári.
„Þessi botnlausa græðgi fjármálakerfisins á sér engin takmörk en rétt er að geta þess að arðsemi eigin fjár Íslandsbanka var 13,2 prósent á þriðja ársfjórðungi. En hugsið ykkur, verðbólga er að lækka, stýrivextir eru að lækka, verðbólguvæntingar eru að lækka og því er spáð að hagvöxtur verði 0% á þessu ári. Þrátt fyrir þetta hefur Íslandsbanki hækkað breytilega verðtryggða húsnæðisvexti um 0,80% á síðustu 63 dögum,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að þessi rányrkja gagnvart heimilum sem eru með verðtryggð húsnæðislán hjá Íslandsbanka þýði að á síðustu 63 dögum hafi vaxtabyrði af 45 milljóna króna húsnæðisláni með breytilega vexti á verðtryggðu láni í Íslandsbanka hækkað um 30 þúsund á mánuði eða 360 þúsund á ársgrundvelli.
„Ég óttast að aðrir bankar fylgi í fótspor Íslandsbanka enda á græðgi fjármálakerfisins sér engin takmörk enda nægir að nefna að hreinar vaxtatekjur viðskiptabankanna þriggja nema yfir 500 milljörðum frá árinu 2021.
Ég spyr: Hvar eru stjórnvöld? Hvar eru þingmenn? Ætla menn að láta fjármálakerfið komast upp með það að hækka verðtryggða vexti um 0,80% á sama tíma og stýrivextir lækka um 0,75% og verðbólga er á hraðri niðurleið?“ segir Vilhjálmur.