Fatlaður drengur fær ekki þjónustu í verkfalli

Ásdís segir drenginn sýna mun erfiðari hegðun en áður og …
Ásdís segir drenginn sýna mun erfiðari hegðun en áður og afturkippur sé kominn í þroska. Ljósmynd/Aðsend

Fjögurra ára drengur á einhverfurófi og með þroskaskerðingu fær ekki nauðsynlega þjónustu og stuðning meðan á verkfalli kennara stendur.

Hann er í Leikskóla Seltjarnarness, sem er einn af fjórum leikskólum þar sem kennarar eru í ótímabundnu verkfalli. 

Móðir drengsins segir andlega líðan drengsins fara versnandi og honum líði augljóslega illa, hann sýni erfiðari hegðun og hafi farið aftur í þroska. Hún tekur fram að hún styðji baráttu kennara, en finnst að taka hefði mátt tillit til þarfa fatlaðra barna.

Leikskólastjóri sótti um undanþágu svo starfsfólk í verkfalli fengi að sinna honum og tveimur öðrum börnum í svipaðri stöðu, en þeirri undanþágubeiðni var hafnað. Um er að ræða fagmenntað starfsfólk sem hefur sinnt honum og þekkir hann.

„Hann er með fötlunarskilgreiningu og mér skilst að hann eigi rétt á þessari þjónustu, en nú stangast á skyldur sveitarfélagsins til að sinna því og að sveitarfélagið geti ekki brotið verkfallslög,“ segir Ásdís Helgadóttir, móðir drengsins, í samtali við mbl.is.

„Það gætu verið varanlegar afturfarir í þroska“

Sótt var um að drengurinn fengi þjónustu helminginn af þeim tíma sem hann er vanur að fá með stuðningsaðilum. Ekki var því sótt um að hann fengi fullan dag á leikskóla, heldur eingöngu einhverja þjálfun og þjónustu sem Ásdís segir honum nauðsynlega.

Nefnd sem tekur fyrir undanþágubeiðnir og er skipuð fulltrúum bæði frá Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hafnaði hins vegar þeirri beiðni.

Þau sem nefndina skipa virðast ekki vera sérfræðingar málefnum fatlaðra eða hafa haft neinar forsendur til að meta þörf barnanna fyrir þjónustu, því ekki var haft samband við foreldrana eða aðra sem gátu varpað ljósi á stöðu þeirra.

Að mati nefndarinnar var ekki hægt að sýna fram á að með því kalla þá fólkið til starfa væri verið að afstýra neyðarástandi. Auk þess næði heimildin aðeins til tímabundinnar vinnu.

„Hvað telst vera neyð, er það ef barnið er að deyja? Það er vissulega ekki að deyja en því líður mjög illa. Það gætu verið varanlegar afturfarir í þroska. Það er ekkert víst að hann nái þessu upp aftur.“

Er öll útklóruð eftir drenginn

Eftir þrjár vikur í verkfalli segist Ásdís finna mikinn mun á andlegri líðan drengsins og hegðun.

„Fyrsta vikan var kannski allt í lagi, önnur vikan var svolítið erfið og sú þriðja algjör hryllingur. Hann er alltaf ljúfur og góður en hann er mjög stirður í skapinu. Allt í einu er hann farinn að klóra mig og ég skil ekki af hverju. Ég er öll útklóruð í framan og á líkamanum. Þetta er ekki það sem hann gerir venjulega.“

Drengurinn getur aðeins sagt einstök orð og tjáir sig ekki mikið, hann getur því ekki sagt hvernig honum líður.  

„Hann skilur ekki af hverju það er ekki leikskóli. Hann getur ekki tjáð sig um að honum líði illa, það er ekki orð sem hann kann.“

Ásdís tekur það fram að hún styðji kennara og vilji að þeir fái góð laun. Hún skilji að allsherjarverkfall sé ekki ákjósanlegt. Þá geri hún sér grein fyrir því að margir séu ósáttir við útfærslu verkfallsaðgerða, en sjálf geri hún ekki athugasemdir við þær.

„Ég set ekki út á framkvæmdina þannig séð, nema mér finnst að það mætti taka tillit til barna sem standa mjög höllum fæti. Þetta er eitthvað sem gæti haft veruleg áhrif.“

Allir orðnir mjög tættir

Það eru ekki margir sem geta sinnt drengnum fyrir utan foreldrana, en móðir hennar og systir eru í raun þær einu sem hafa gert það. Ekkert þeirra hefur hins vegar þá fagmenntun sem þarf til að sinna þeirri þjálfun sem hann þarfnast.

„Hann er heppinn að hann er hjá iðjuþjálfa á æfingastöðinni, en leikskólinn á að fara með hann aðra hverja viku þangað og við hina, en við höfum verið að fara með hann. Það sést alveg þar að hann vill ekki vera með. Hann er í erfiðu andlegu ástandi. Það sést í öllu þó hann geti ekki tjáð það beint.“

Ásdís segir þau foreldrana í betri stöðu en margir aðrir varðandi það sinna vinnu meðan á verkfalli stendur. Sjálf er hún með nokkuð sveigjanlegan vinnutíma og maðurinn hennar er öryrki í hlutastarfi. Þau hafa því náð að púsla dögunum saman án þess að það hafi haft veruleg áhrif á tekjur heimilisins. Hún gerir sér grein fyrir því ekki eru allir svo heppnir.

„Ég er að reyna að koma 100 prósent vinnu inn í 60 prósent tímans og það mun á einhverjum tímapunkti ekki ganga upp lengur. Það eru allir orðnir mjög tættir. Það kemur að skuldadögum þó þetta gangi upp núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert