Hraunið náð Njarðvíkuræð: Fylgjast með raflínu

Orkufyrirtækin hafa mestar áhyggjur af Svartsengislínu eins og sakir standa. …
Orkufyrirtækin hafa mestar áhyggjur af Svartsengislínu eins og sakir standa. Hraun er komið yfir Njarðvíkuræð, sem liggur í jörðu. mbl.is/Eyþór

Hraunflæði úr eldgosinu er komið yfir bæði heita vatns og kaldavatnslagnir sem liggja til og frá Svartsengi auk þess sem hraunið er nú undir Svartsengislínu. Vatnslagnirnar eru báðar í jörðu á þeim kafla sem hraunið er og eru því varðar, en óttast er að hiti frá hrauninu sem rennur undir raflínuna geti haft þau áhrif á að línan sjálf eyðileggist vegna hita.

Hraunið komið yfir Njarðvíkuræð

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir að hraunið nú komið yfir Njarðvíkuræðina sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Reykjanesbæjar. Er það æðin sem fór í sundur síðasta febrúar með þeim afleiðingum að heitt vatn fór af stærstum hluta Reykjaness. Hins vegar var í kjölfarið ráðist í aðgerðir við að koma lögninni í jörð á yfir kílómeters kafla þar sem landið liggur lægst, auk þess sem kaldavatnslögnin, sem liggur frá vatnsbóli á svæðinu til Svartsengis, er líka í jörðu.

Segir Tómas að lagnirnar báðar séu því varðar á um tveggja metra dýpi á þeim stað þar sem hraunið er líklegt til að renna á en áður hefur reynt á að hraun renni svona yfir lagnir meðal annars til Grindavíkur.

Njarðvíkuræð var lögð í jörð á yfir kílómetra kafla í …
Njarðvíkuræð var lögð í jörð á yfir kílómetra kafla í febrúar þar sem land liggur lægst. Ljósmynd/HS Orka

Mestar áhyggjur af rafmagnsflutningi

Mestar áhyggjur hafa orkufyrirtækin hins vegar af rafmagnsflutningi á svæðinu. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir í samtali við mbl.is að hraun sé komið undir Svartsengislínu.

Möstur þeirrar línu voru hækkuð fyrr á þessu ári þar sem land er lægst til að varna því að hraun myndi taka þau niður. Hins vegar segir Steinunn að helsti ótti manna sé að mikill hiti frá hrauninu valdi því að leiðararnir (línan sjálf) séu í hættu og gætu sigið. Ef þeir hitna of mikið slá línurnar út og skemmast og það myndi valda því að rafmagn færi af Svartsengi og Grindavík.

Varaafl og færanlegar rafstöðvar 

Tómas staðfestir að HS Orka sé undir þessa sviðsmynd búið og sé með vararafstöðvar sem geti haldið virkjuninni gangandi og þar með heitavatnsframleiðslu. Steinunn segir jafnframt að fyrirtækið sé undirbúið með þrjár 3,6 MW færanlegar rafstöðvar í Þorlákshöfn sem verði fluttar með hraði til Grindavíkur fari rafmagn af bænum.

Samkvæmt Steinunni er rennslið til vesturs frá sprungunni talsvert, en tungan er mun afmarkaðri en í fyrri gosum. Því nær hún styttra til norðurs í átt að vogum og hefur ekki enn reynt á varnargarða við Svartsengi, en hefur engu að síður runnið nokkuð langt til vesturs og þar með yfir fyrrnefndar lagnir og undir raflínuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert