Hraunið við bílastæði Bláa lónsins: Ekki áður runnið svo langt

Þessi mynd var tekin fyrir tæplega klukkustund síðan og sýnir …
Þessi mynd var tekin fyrir tæplega klukkustund síðan og sýnir að hraunið er rétt ókomið að Bláalónsveginum. Þar lengra má sjá bílastæði Bláa lónins og er hraunið nú rétt ókomið þangað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraunið sem nú rennur meðfram varnargarðinum norðan við Bláa lónið hefur í fyrri gosum á þessu ári ekki runnið jafn langt til vesturs. Er það nú svo gott sem komið að bílastæðum við Bláa lónið.

Unnið er að því að loka skörðum í varnargarðinum bæði þar sem Bláalónsvegurinn þverar garðinn og þar sem aðgengi er frá bílastæðum að Bláa lóninu. Búist er við að sú vinna klárist áður en hraunið kemur að skörðunum.

Ekki áður runnið svona langt

Run­ólf­ur Þór­halls­son, sett­ur sviðsstjóri al­manna­varna, segir að staðfest sé að hraunið hafi ekki áður runnið svo langt í vesturátt. Fer hraunið hratt yfir en er í mjórri rennu frekar en að dreifa úr sér. Síðasta hraun skapaði þessar aðstæður. „Fyrri hrauntungur sköpuðu þannig aðstæður að þetta [núverandi hraunflæði] rann meðfram fyrri hraunum frá þessu ári og fór ansi hratt yfir,“ segir Runólfur.

Hann segir verktaka í varnargarðsvinnunni vera þess fullvissa um að þeir muni ná að loka skörðunum og að hraun fari ekki inn fyrir varnargarðana, hvort sem það væri í átt að Bláa lóninu eða Svartsengi. „Það er bæði efni og vanir menn á svæðinu.“

Vinnuvélar eru nú við varnargarðinn norðan Bláa lónsins og fylla …
Vinnuvélar eru nú við varnargarðinn norðan Bláa lónsins og fylla þar upp í skörð þar sem vegir þveruðu garðinn. Þessi mynd er tekin fyrir um klukkustund síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætti ekki að fara yfir garðinn heldur dreifa úr sér til vesturs

Þá segir hann þau líkön sem almannavarnir sjái hjá Veðurstofunni sýna að ekki eigi að vera hætta á að hraunið fari yfir garðinn.

Hraunið er í raun þegar komið norður fyrir garðinn og rennur nú meðfram norðvestur- og vesturhlið garðsins. Þar eru bílastæði Bláa lónsins og er hraunið nú alveg við bílastæðin eða að renna inn á þau.

Runólfur segir að miðað við líkön ætti hraunið í framhaldinu að renna til vesturs eða suðvesturs og þar eru líkur á að það muni dreifa úr sér. Það verði hins vegar að koma betur í ljós þegar hraunið komi þangað.

Hraunið þveraði Grindavíkurveg í morgun.
Hraunið þveraði Grindavíkurveg í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert