Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt mæðgur í fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattlögum og gert þeim að greiða háar sektir.
Þriðja og yngsta konan var sýknuð þar sem ekki þótti hafið yfir skynsaman vafa að erlendur maður á sjötugsaldri hefði veitt henni lán upp á tæpa 131 milljón, án vaxta eða greiðsluáætlunar.
Móðirin, Íris Hera Norðfjörð Jónsdóttir, hlaut tíu mánaða skilorðsbundinn dóm og er henni gert að greiða 42 milljónir króna fésekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en ella skuli hún sitja í fangelsi í 360 daga.
Dóttir hennar, Brynja Norðfjörð Guðmundsdóttir, hlaut sex mánaða fangelsisdóm og er gert að greiða 22 milljónir króna í fésekt til ríkissjóðs ella skuli hún sitja í fangelsi í 300 daga
Málið sneri að skattframtölum mæðgnanna tveggja og fjölskylduvinkonu þeirra sem allar tóku á móti háum fjárupphæðum frá auðkýfingi búsettum á Bahamaeyjum á árunum 2014-2017.
Var þeim gefið að sök að hafa ekki talið fram upphæðirnar sem peningagjafir í skattframtölum sínum, en yngsta konan bar fyrir sig að hafa ávallt talið féð, réttilega, fram sem lán.
Íris neitaði alfarið sök og kvaðst einungis hafa notað peningana til að greiða niður skuldir fyrirtækis síns í stað þess að fara í gjaldþrot eins og í stefndi. Fjárveitingarnar frá manninum hafi verið persónuleg lán án vaxta til þess að greiða skuldir fyrirtækisins.
Hún kveðst alfarið hafa stólað á bókara sinn í þessum efnum, en bókarinn kvaðst ekki hafa sinnt persónulegu bókhaldi Írisar og því ekki hafa komið að skattframtali hennar. Íris hafi lánað fyrirtækinu fyrir skuldum af sínum persónulegu fjármunum.
Lagði maðurinn ríflega 52,4 milljónir króna inn á persónulegan bankareikning konunnar á árunum 2014-2017. Reiknaðist skattayfirvöldum til að konan hefði skuldað ríflega 20,7 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar.
Sagði í dómnum að Íris hefði ekki getað rennt neinum stoðum undir þá málsvörn sína að um lán hafi verið að ræða en ekki gjafir, svo sem með lánasamningi eða skjalalegum gögnum.
Þrátt fyrir fullyrðingar hennar um að fjármunirnir hafi átt að létta undir rekstur félags hennar þá liggi fyrir að þeir hafi verið lagðir inn á hennar persónulega reikning. Auk þess verði hvergi séð í málinu að kvaðir þar að lútandi hafi verið á millifærslum fjármunanna til hennar. Fyrir liggi að stór hluti fjárins fór aldrei inn í rekstur.
Brynja játaði skýlaust á sig brotið og bar fyrir sig að hún hefði einfaldlega ekki vitað að gjafir væru skattskyldar hér á landi.
Maðurinn hefði verið eins konar föðurímynd í lífi hennar og hún því ekki séð neitt athugavert við að hann gæfi henni peninga. Á árunum 2015-2017 lagði maðurinn hátt í 30 milljónir króna inn á bankabók hennar.
Komst hún hjá því að greiða ríflega 10,7 milljónir í tekjuskatt og útsvar.
Bar hún yngstu fjölskylduvinkonunni, sem sýknuð var í málinu, ekki góða söguna en hún taldi hana hafa þegið fé frá manninum á gjörólíkum forsendum en þær mæðgur.
Mál yngstu konunnar var nokkuð flóknara en það laut að persónulegu láni mannsins til hennar. Þegar hún var í kringum 18 ára aldur ákvað maðurinn að lána henni eina milljón dollara eða um 131 milljón íslenskra króna.
Konan taldi fjárupphæðina sem aðrar skuldir frá upphafi og sýndi fram á lánasamning þeirra á milli fyrir dómnum. Segir konan manninn hafa veitt sér lánið eftir að hafa heyrt um drauma hennar um að stofna fyrirtæki og eignast heimili þrátt fyrir erfiða æsku.
Hún hafi gert allt eins og um var rætt við gerð lánasamningsins, stofnað fyrirtæki og keypt hús og sömuleiðis staðið undir greiðslum á öðrum lánum og því ekkert sem gæfi til kynna að hún hygðist ekki greiða lánið til baka.
Aðspurð neitaði hún því að hún og maðurinn hafi verið par eða náin með slíkum hætti eins og gefið hafði verið í skyn. Lánið hafi hann einfaldlega veitt henni af góðvilja og í trú um að hún myndi greiða það til baka.
Í dómnum segir að framburður hennar um lánið og skilmála þess hafi ekki verið að öllu leyti stöðugur frá upphafi og að lánsamningurinn væri „mjög óvenjulegur“.
Hún hafi gefið skýringar á því og að mati dómsins séu þær skýringar ekki þess eðlis að þeim verði hafnað sem fráleitum eða augljóslega röngum eftiráskýringum.
Þá hafi verið vísað til þess að ákærða muni hvorki hafa tíma né fjárhagslega burði til að endurgreiða umrædda fjárhæð. Segir dómurinn það ekki geta verið afgerandi við mat þess hvort um hafi verið að ræða lán eða gjöf, en auk þess þykir ákærða hafa leitt nokkrar líkur að því að henni verði ekki ókleift að endurgreiða féð.
Hefur því verið slegið föstu við meðferð málsins hjá skattyfirvöldum að um hafi verið að ræða gjöf og fjármunirnir hafa verið skattlagðir samkvæmt því eins og að framan greinir.
Í sakamáli verður hins vegar ekki sakfellt nema fram sé komin nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um hvert það atriði sem varðar sektákærðs manns en sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu.