Mjög alvarlegt ef Njarðvíkuræð gefur sig

Þessi mynd af eldgosinu var tekin á níunda tímanumí morgun.
Þessi mynd af eldgosinu var tekin á níunda tímanumí morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ákveðinn léttir fyrir Grindvíkinga að þetta virðist vera meinlítið þó að gos sé alltaf alvarlegur atburður, ekki síst út af gasmengun. En ef upptökin hefðu verið sunnar hefði þetta getað verið alvarlegra fyrir Grindavíkurbæ,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Eldgosið sem hófst í gærkvöldi.
Eldgosið sem hófst í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir að hraun renni yfir Njarðvíkuræð og ef hún gefur sig segir Fannar það vera mjög alvarlegan hlut, bæði fyrir Grindavík og Suðurnesin í heild „Við vonum það besta en eins og sakir standa þá er ekki bráð hætta yfirvofandi,“ bætir hann við og segir æðina vel varða.

„Menn hafa ekki stórar áhyggjur af því að hún fari eins og sakir standa.“

Fannar Jónasson.
Fannar Jónasson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bagalegt að vegurinn sé kominn undir hraun

Fannar segir bagalegt að hluti Grindavíkurvegar sé kominn undir hraun en aðrar leiðir til og frá bænum séu færar, þ.e. bæði Nesvegur og Suðurstrandavegur.

Engir ferðamenn voru í Grindavík þegar eldgosið hófst í gærkvöldi en rýming íbúa gekk vel. Spurður út í fyrirtækin í bænum segir Fannar að útgerðarfyrirtækið Vísir hafi verið með öfluga starfsemi á virkum dögum.

Ferðamenn við lokunarpóst hjá Grindavíkurvegi.
Ferðamenn við lokunarpóst hjá Grindavíkurvegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má segja að tímasetningin hvað varðar þetta eldgos hafi verið heppileg að því leyti að það var ekki vinnsla í gangi,“ segir hann og reiknar með því að hægt verði að hefja starfsemi fljótlega aftur í bænum ef það heldur áfram að draga úr krafti gossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert