Hrauntungan sem rennur nú meðfram varnargarðinum og fór fyrr í dag yfir bílastæðin við Bláa lónið er komin að náttúrulegum þröskuldi rétt sunnan við þann stað þar sem bílastæðin voru og er farin að renna til vesturs.
Samkvæmt hraunflæðilíkönum er líklegt að hraunið muni í framhaldinu dreifa úr sér, en engin mannvirki eru þar. Virðast varnargarðarnir og þær uppfyllingar sem ráðist var í í dag hafa haldið, en þó er unnið að því að hækka uppfyllingar í skörðin sem voru á garðinum.
„Varnirnar hafa haldið eins og til var ætlast,“ segir Ari Guðmundsson, einn umsjónarmanna varnargarðanna á Reykjanesskaga og starfsmaður Verkís, í samtali viðmbl.is.
Hann segir að tekist hafi að loka skörðum við Bláalónsveginn og við bílaplan lónsins. „Það er ekki hætta eins og staðan er núna að hraunflæðið fari inn fyrir, en við erum hins vegar að hækka og styrkja lokunina til að eiga meira viðbragð inni,“ segir Ari.
Þegar horft er á drónamyndir af svæðinu, meðal annars meðfylgjandi myndir sem Jakob Kristian Vegerfors tók nú á þriðja tímanum, má sjá þriðja veginn inn á svæðið (þar sem gula grafan stendur þvert á veginn).
Ari segir að þessi vegur sé hins vegar ekki í gegnum skarð heldur fari hann yfir varnargarðinn og að þarna sé hraunið í raun komið að náttúrulegum þröskuldi.
Myndina má sjá í enn hærri upplausn hér.
Þar á hann við að hækkun er í landinu og ef horft er á myndina til vesturs má sjá að um er að ræða gamla hrauntungu sem hækkar þar með landið nokkuð.
Vegna þessa sýna hraunflæðilíkön að hraunið muni nú renna til vesturs, eins og það er farið að gera, og þar dreifa úr sér.
Á vettvangi eru alla vega fjórar gröfur og ýta. Allt eru þetta mjög stór og öflug tæki að sögn Ara og ekki hægt að koma mörgum fleiri vélum að.
„Við teljum okkur vera með næg tæki til að ráða við þetta,“ segir hann og bætir við að búið hafi verið að koma umtalsverðu efni fyrir á staðnum til að geta verið fljótir að fylla í skörðin.
Reyndist það enda skynsamleg ákvörðun því Ari segir að hraunið úr þessu gosi hafi verið mjög þunnfljótandi og farið hratt yfir. Menn hafi verið búnir að gera ráð fyrir að slíkt gæti gerst og viðbúnaðurinn því eftir því. Þetta hafi samt þýtt að viðbragðið þurfti að vera hraðara í dag en oft áður.
Spurður hvað taki við þegar vinnu við skörðin sé lokið segir Ari að það fari eftir þróun gossins.
Þegar fyrri gosum hefur lokið hefur gefist vel að leggja vegi yfir ný runnið hraunið og segir hann að almennt þurfi að líða um 1-2 vikur frá goslokum þangað til hægt sé að fara með vinnuvélar inn á hraunið.
„En það fer eftir því hversu þykkt eða þunnt hraunið er,“ segir Ari. Hann tekur fram að engar ákvarðanir hafi verið teknar um hver væri besta leiðin aftur inn á svæðið og það haldist aftur í hönd við þróun gossins, en að mjög gott sé að vera með flóttaleiðir bæði til suðurs og norðurs frá Svartsengi.