Verkfallsaðgerðir munu hafa áhrif á Sjúkrahúsið á Akureyri, en félagsmenn í Læknafélagi Íslands hafa samþykkt verkfallsboðun.
Verkfall skellur á á miðnætti aðfaranótt mánudags þann 25. nóvember, náist ekki að semja fyrir þann tíma.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Kemur þar fram að allri bráðaþjónustu verði sinnt en áhrif verkfalla verði helst á valkvæða starfsemi, m.a. á skurðaðgerðir og dag- og göngudeildarþjónustu.
Einungis verði framkvæmdar bráðaaðgerðir á meðan á verkfalli stendur, lyfjagjöfum krabbameinssjúklinga sinnt sem og þeirri göngudeildarþjónustu sem við verður komið.
Er skjólstæðingum sjúkrahússins sem eiga bókaðan tíma í skurðaðgerð eða á dag- og göngudeild bent á að fylgjast vel með að morgni verkfallsdaga hvort verkfall sé skollið á eða sé enn í gangi, sjúklingar gætu átt von á afboðun.