„Mannréttindadagur barna er alla jafna í heiðri hafður á leikskólum landsins,“ segir María Ólafsdóttir, móðir á Seltjarnarnesi, en í gær stóðu foreldrar á Seltjarnarnesi fyrir hátíðarhöldum á Eiðistorgi með skemmtidagskrá fyrir börnin.
„Þar sem daginn bar upp þegar verkfall er yfirstandandi fannst okkur foreldrum barna tilvalið að grípa tækifærið og gera okkur glaðan dag.“
Hún segir skemmtunina í gær hafa fyrst og fremst snúist um börnin og að gefa foreldrum tækifæri til að hittast og gleðjast með börnum sínum. „En um leið viljum við vekja athygli á stöðunni og minna á að mannréttindi allra barna skuli virt,“ segir hún og bætir við að það sé hlutverk þeirra fullorðnu að setja börnin ætíð í fyrsta sætið.
María segir að þetta ástand minni hana á ástandið í covid, en hún segir að foreldrar leikskólabarnanna reyni að hittast til að láta börnin leika sér saman og fá stuðning. „Það sem er allra verst er að vita ekki hvenær þetta ástand endar,“ segir hún.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.