Ómar Friðriksson
Reitir fasteignafélag hafa kynnt fyrstu hugmyndir um þróun og fjölbreytta uppbyggingu svonefnds lífsgæðakjarna, sem er einkum hugsaður fyrir eldri borgara, á Loftleiðasvæðinu við Nauthólsveg. Um yrði að ræða uppbyggingu með blöndu af íbúðum, heilbrigðisþjónustu, verslun, heilsurækt o.fl. „þar sem búseta, samvera, heilsuefling og mannlíf eru lykilstef“, eins og segir í kynningu Reita á hugmyndum um uppbygginguna fyrir öldungaráði Reykjavíkurborgar í vikunni.
Reitir og Reykjavíkurborg undirrituðu fyrr á þessu ári viljayfirlýsingu um uppbyggingu lífsgæðakjarna á Loftleiðasvæðinu. Reitir vinna að undirbúningi að umbreytingu á skrifstofubyggingu Icelandair í hjúkrunarheimili og hafa einnig mótað hugmyndir um nýja íbúðauppbyggingu á þessu svæði fyrir um 120 íbúðir, blöndu af þjónustuíbúðum og almennum leiguíbúðum og þjónustukjarna sem myndi m.a. hýsa matvöruverslun og heilsutengda starfsemi, samkvæmt frétt á vef Reita.
Birgir Þór Birgisson, framkvæmdastjóri þróunar hjá Reitum, segir að hér sé eingöngu um fyrstu tillögur að ræða, sem eigi áreiðanlega eftir að taka einhverjum breytingum. Vinna Reitir að þessum hugmyndum í samráði við hollensku arkitektastofuna JVST.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.