Dómur þyngdur um þrjú ár

Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur þyngt dóm yfir karlmanni sem var í mars sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tilraun til manndráps í nóvember í fyrra. Maðurinn hlaut tveggja ára fangelsi í héraði en Landsréttur hefur dæmt hann í fimm ára fangelsi.

Maðurinn, Jaguar Do, réðist að öðrum manni með hnífi, fyrst utandyra við íbúð í Reykjavík og síðan á leið þeirri sem maðurinn hljóp undan Jaguar. Hann hafði lagt margsinnis til mannsins og stungið hann með hnífnum.

Með hinum áfrýjaða dómi var Jaguar sakfelldur fyrir hluta þeirrar háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru og var brot hans talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Framburður árásarmannsins ótrúverðugur

Í dómi Landsréttar var talið sannað að árásarmaðurinn hefði í umrætt sinn lagt margsinnis til mannsins eins og lýst væri í ákæru en maðurinn hlaut mörg stungusár og áverka. 

Að mati Landsréttar var framburður Jaguar  í héraði um að hann hefði gætt þess að stinga manninn þannig með hnífnum að hann hlyti ekki bana af talinn ótrúverðugur, auk þess sem talið var að lýsingar hans hvað þetta varðaði hefðu verið misvísandi.

Gat ekki haft fulla stjórn á því hvar hann stakk manninn

Þá var tekið undir það mat sérfræðilæknis, að Jaguar hefði ekki getað haft fulla stjórn á því hvar hann stakk manninn og hversu djúpt hnífslagið gengi.

Var samkvæmt þessu talið að Jaguar hefði látið sér í léttu rúmi liggja hvort líftjón hlytist af verknaði hans. Hann hefði því gerst sekur um tilraun til manndráps og brot hans verið réttilega heimfært til 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga í ákæru.

Við ákvörðun refsingar mannsins var litið til 1., 2. og 3. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og var refsing hans ákveðin fangelsi í fimm ár.

Loks var honum gert að greiða manninum tvær milljónir kr. í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert