Dómur yfir ökumanni strætisvagns staðfestur

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem var dæmdur í desember í fyrra í tveggja mánaða fangelsi fyrir manndráp af gáleysi.

Var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa í nóvember 2021 ekið hópbifreið án nægilegrar aðgæslu og varúðar og án þess að virða forgang gangandi vegfaranda þannig að hópbifreiðin hafnaði á konu sem gekk gengt grænu umferðarljósi yfir gangbraut.

Slysið varð á gatnamótum Skeiðarvogs og Gnoðarvogs

Konan féll við og lenti undir bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hlaut fjöláverka og lést nær samstundis.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst lögreglu tilkynning fimmtudaginn 25. nóvember 2021, kl. 8.32, um að umferðarslys hefði orðið á gatnamótum Skeiðarvogs og Gnoðarvogs í Reykjavík. Hefði strætisvagni verið ekið á gangandi vegfaranda og væri hann fastur undir vagninum.

Þá kemur fram í frumskýrslunni að myrkur hafi verið á vettvangi en götuljós hafi lýst. Þá hafi verið mikil rigning. Ekki hafi verið hálka en lofthiti hafi verið um fjórar gráður. Kemur fram að á vettvangi hafi mátt sjá strætisvagn kyrrstæðan í Gnoðarvogi til vesturs. Hafi kona legið með neðri hluta líkamans undir vagninum. Hafi sjúkraflutningamenn hafið endurlífgun. Konan var flutt á bráðamóttöku í Fossvogi þar sem hún var úrskurðuð látin.

Neitaði sök

Maðurinn neitaði sök og byggði á því að umrætt slys yrði ekki rakið til gáleysis hans. Bar hann því við að hann hefði ekki séð konuna í aðdraganda slyssins

Með hliðsjón af dómaframkvæmd og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing mannsins ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Þá var manninum gert að greiða eiginmanni konunnar og dóttur hvoru um sig 2.000.000 króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert