Lögreglan á Hverfisgötu var kölluð til vegna einstaklings sem var óvelkominn í íbúð. Hann hafði tekið upp skæri og hótað íbúum í húsinu en lét sig svo hverfa á braut.
Einstaklingur var handtekinn við afskipti lögreglunnar þar sem í ljós kom að hann var eftirlýstur í þágu rannsóknar annars máls. Hann var vistaður í fangaklefa, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Lögreglan sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti var kölluð til vegna umferðaróhapps en ekki er talið að neinn hafi slasast í óhappinu. Við rannsókn málsins kom í ljós að annað ökutækið var óskráð í kerfum lögreglu og var það því tekið úr umferð.
Ökumaður var stöðvaður í akstri af lögreglunni á Vínlandsleið grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Hann var látinn laus eftir hefðbundið ferli.