Líklegt að farið verði af neyðarstigi í dag

Staðan við hraunjaðarinn í dag um hádegi.
Staðan við hraunjaðarinn í dag um hádegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklegt er að viðbragðsstig verði fært af neyðarstigi og lækkað á stöðufundi síðar í dag í ljósi þess að hægt hefur allverulega á hraunflæði.

Þetta staðfestir Runólfur Þórhallsson, settur sviðsstjóri almannavarna.

„Það eru allar líkur á því án þess að lofa neinu. Það stefnir allt í eina átt.“

Staðan breyttist þegar rafmagn datt út

Spurður hvort varnargarðar haldi enn svarar Runólfur játandi. Hraun stefni þó í átt að þyrlupalli á svæðinu en hann teljist vart til mikilvægra innviða.

„En það er aðallega þessi niðurdælingaraðfallslína frá Svartsengi, meðfram henni er ljósleiðari og háspennulína en það er sviðsmynd sem er ekki mjög nálægt okkur í tíma miðað við stöðuna núna,“ segir Runólfur.

„Og eins Njarðvíkurlínan, hún heldur enn, en það þarf að fylgjast mjög vel með því það hefur svo mikil áhrif.“

Staðan hafi sömuleiðis breyst þegar Svartsengislína leysti út enda talsverð óvissa sem því fylgir.

„Landsnet, HS orka og Veitur eru með rosalega góða vöktun á því en sú staða breyttist þegar Svartsengislínan datt út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert