Heildarvelta á íbúðamarkaði hefur dregist saman á síðustu mánuðum, samhliða fækkun kaupsamninga miðað við vor- og sumarmánuði. Aukið framboð á fasteignamarkaði má að miklu leyti skýra með fjölda nýrra íbúða sem komið hafa á markað í ár og selst hægt, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Rúmlega 44% íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu eru nýjar íbúðir.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er hlutdeild nýrra íbúða í framboði einnig sögulega mikil, en tæplega 41% allra íbúða til sölu á svæðinu er í nýbyggingum. Á landsbyggðinni er hlutdeild nýbygginga einnig sögulega mikil, en þó er hún nokkuð minni en á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess.
Þinglýstir kaupsamningar voru um 1.000 talsins í septembermánuði, en þeir voru álíka margir í ágúst. Kaupsamningum hefur fækkað lítillega á haustmánuðum ef miðað er við vor- og sumarmánuði þessa árs.
Kaupsamningar í september voru 20% fleiri en þeir voru í sama mánuði í fyrra.
Stór hluti kaupsamninga á vor- og sumarmánuðum var vegna uppkaupa ríkisins á fasteignum í Grindavík og íbúðakaupa einstaklinga sem þar áttu lögheimili.
Atburðirnir í Grindavík hafa haft töluverð áhrif á markaðinn á þessu ári, en á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni voru kaupsamningar í apríl til júní tvöfalt fleiri en þeir voru á sama tíma í fyrra.