„Því miður er maður orðinn reynslubolti í þessu,“ segir Friðrik Einarsson, eigandi Northern Light Inn í Svartsengi.
Hótelið var rýmt þegar ljóst var að eldgos væri að hefjast á miðvikudagskvöld en starfsfólk hefur nú snúið aftur þar sem það annast matreiðslu fyrir viðbragðsaðila.
„Við erum með lokað tímabundið á meðan þetta gengur yfir og svo bara opnum við um leið og við fáum heimild til.“
Hann segir starfsfólk nú leggja kapp á að þrífa hótelið hátt og lágt og koma því í jólabúning áður en þeir opna á ný.
Hótelið sé ekki í sérstakri hættu hvað hraunflæði varðar enda séu þau talsvert langt innan varnargarðanna, ólíkt Bláa lóninu. Frekar hafi þau áhyggjur af gasmengun.
Það sem snerti þau helst sé að Grindavíkurvegur hafi farið í sundur en Friðrik bindur þó vonir við að hægt verði að tengja veginn hið fyrsta.
„En auðvitað þýðir ekkert að opna fyrr en hlutirnir eru orðnir öruggir. Það er náttúrulega fyrir öllu.“
Segir Friðrik ástandið vera byrjað að hafa veruleg áhrif og hann voni því að gosinu ljúki hið fyrsta.
Fyrirtækið hljóti enga styrki frá ríkinu lengur og þurfi því að standa á eigin fótum þrátt fyrir að verða af tekjum. Launastyrkur sem þeim hafi verið veittur hafi runnið út í ágúst og ekkert gerst síðan.
„Og núna eru menn náttúrulega bara komnir í kosningabaráttu.“