Össur telur erindi Pírata í stjórnmálum lokið

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, gerir að því skóna í pistli á Facebook að erindi Pírata í íslenskum stjórnmálum sé lokið og að atkvæði til Pírata sé kastað á glæ.

„Hið sorglega við stöðu Pírata í dag er að málefnalega skipta þau ekki lengur máli.“ Þá sé bersýnilegt valdatafl innan flokksins, sem sé í uppnámi að mati Össurar.

Ekki telst þó ólíklegt að orð Össurar beinist til kjósenda Pírata í þeirri von að Samfylkingin, sem mælist í hæstu hæðum með um 20% fylgi á landsvísu, bæti enn meira fylgi við sig.

Ekkert hægri eftir í Pírötum 

Allmargir Píratar mótmæla orðum Össurar en það gerir þó ekki Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrum þingmaður Pírata. Hún segist vera löngu komin á vagn Samfylkingar og segir Pírata hafa færst langt til vinstri ef miðað er við rætur flokksins sem snérust um netfrelsi og aðrar frelsishugsjónir. Þá segir hún Pírata hafa í grunninn verið hlynnta sósíaldemókratískri hugmyndafræði þó að hann hafi í upphafi verið í einhvers konar unglingauppreisn.

„Píratar hafa hins vegar í seinni tíð verið að færast æði mikið til vinstri og hafa sífellt í könnunum verið á svipuðum slóðum og Samfylkingin og Viðreisn. Hægrimennskan er löngu farin úr Pírötum, þó að það hafi kannski mátt segja að hún hafi lifað þar í einhver ár í upphafi,“ segir Ásta. 

„Alltaf verið að hræra í grautnum“ 

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er ekki par hrifinn af málflutningi Össurar og Guðrúnar sem hann segir litast af pólitískum hagsmunum.

„Alltaf verið að hræra í grautnum og jafnvel bæta aðeins í hann," segir Björn Leví og vísar orðum sínum til Össurar. Segir hann Samfylkingu hafa skilið Pírata eina eftir sem málsvara flóttafólks. Eins telur hann flokkinn hafa sett spillingarmál, skaðaminnkun, gervigreind, gagnsæi og fleira á dagskrá sem ekki hafi verið rætt áður. Því mótmælir hann meintu erindisleysi flokksins.

Hvað Ástu Guðrúnu varðar, segir Björn Leví: „nei. Þó þú hafir verið þannig (aðhyllst sósíaldemókratíska hugmyndafræði) þýðir ekki að aðrir hafi verið það,“ segir Björn Leví.

Þræta þau áfram um hugmyndafræði og sakar Ásta Guðrún Björn Leví um að kannast ekki við rætur eigin flokks.

ADHD-deild Samfylkingarinnar

Margir tjá sig um málin og sitt sýnist hverjum um orð Össurar. Meðal annarra segir Eva Hauksdóttir, lögmaður og aðgerðarsinni í léttu kommenti. „Píratar eru bara ADHD deild Samfylkingarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert