Kennarasamband Íslands er reiðubúið að aflýsa verkföllum í fjórum leikskólum.
Frá þessu greinir sambandið í tilkynningu.
Fjórir leikskólar hafa verið í verkfalli frá 29. október. Það eru leikskóli Seltjarnarness, Drafnarsteinn í Reykjavík, Holt í Reykjanesbæ og Ársalir á Sauðárkróki.
Kennarasambandið hefur sent borgarstjóra og bæjarstjórum á Seltjarnarnesi, Sauðárkróki og í Reykjanesbæ erindi þar sem tilkynnt er um að þau séu tilbúin að afstýra verkföllum í leikskólunum frá 27. nóvember með þeim skilyrðum að sveitarfélögin skuldbindi sig til að greiða laun þeirra starfsmanna sem voru í verkfalli.
Í tilkynningunni segir að fordæmi séu fyrir slíku.
„Ef tillaga KÍ verður samþykkt þá gætu leikskólarnir fjórir opnað fyrir öll börn á miðvikudag í næstu viku. Borgarstjóri og bæjarstjórar eru beðnir um að svara erindinu eigi síðar en klukkan tólf á mánudag.“
Verkfallsaðgerðir voru boðaðar í tíu leikskólum til viðbótar í dag.