Embætti héraðssaksóknara er ekki skylt að afhenda geisladiska af upptökum úr lögreglubifreið að ósk manns sem krefst miskabóta frá íslenska ríkinu sökum frelsissviptingar.
Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar í vikunni sem sneri við niðurstöðu héraðsdóms í málinu.
Niðurstaða héraðsdóms var sú að geisladiskarnir væru í vörslu þriðja aðila og ætti embættið að afhenda diskana. Landsréttur sneri þessu við og telur embættið vera hluta ákæruvaldsins þar sem embættið er á vegum íslenska ríkisins.
Héraðssaksóknari hafði áður hafnað afhendingu geisladiskanna en boðið manninum að kynna sér þá hjá embættinu.
Forsaga málsins er sú að maðurinn sóttist eftir miskabótum frá ríkinu vegna ólögmætrar handtöku 30. desember 2018. Lögreglunni barst beiðni frá barnsmóður mannsins umræddan dag þegar hún var að sækja dóttur þeirra úr umgengni. Barnsmóðirin tilkynnti lögreglu að maðurinn hefði ráðist á hana, skellt hurð á fót hennar og ýtt henni upp að vegg. Tilkynnti hún lögreglu einnig að hann hafi eitt sinn ógnað henni með skotvopni, en í gögnum lögreglu kom fram að maðurinn var skráður fyrir skotvopni.
Sérsveitarmenn á vegum ríkislögreglustjóra voru því sendir á vettvang ásamt lögreglumönnum. Maðurinn var handtekinn á staðnum og færður í lögreglubíl. Engin skotvopn fundust á heimili mannsins og var honum sleppt úr haldi 47 mínútum eftir handtökuna.
Frásögn lögreglumannanna og mannsins af atburðarrásinni er ólík. Maðurinn segir að honum hafi verið skellt upp við vegg og hann handjárnaður harkalega þrátt fyrir að hafa farið sjálfviljugur til lögreglu. Hann segir lögreglumenn hafi ausið yfir hann fúkyrðum, kýlt hann og uppnefnt. Kveðst hann hafa upplýst lögreglumennina strax um að byssan væri ekki á heimili hans heldur heimili móður hans.
Lögreglan segir manninn hafa verið ósamvinnuþýðan og neitað að upplýsa um staðsetninguna á umræddu skotvopni.
Maðurinn krefst tæplega 26 milljóna króna auk vaxta í miskabætur frá íslenska ríkinu. Byggir hann bótakröfu sína á því að lögregla hafi valdið honum miska með því að handtaka hann og svipta frelsi með því að halda honum í lögreglubifreið.
Í lögum kemur fram að einstaklingur sem hyggst leggja fram skjal í dómsmáli sem er í vörslu þriðja aðila geti krafist þess að fá hann til að afhenda skjalið. Sá sem krefst skjalsins ber sönnunarbyrði fyrir því að skjalið sé til og í vörslu. Ef þriðji aðili synjar honum um að afhenda skjalið getur hann leitað atbeina dómstóla með því að leggja fram skriflega beiðni um að vörslumaður verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi.
Í dómi Landsréttar segir: „Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og vísað til þess að embætti héraðssaksóknara væri einn af handhöfum ákæruvalds og að embætti hans væri á vegum íslenska ríkisins og því ekki fallist á það með varnaraðila að þau gögn sem krafa hans laut að væru í vörslum þriðja manns sem ekki væri aðili málsins í skilningi 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“